Fimmtudagur 29. maí 2003

149. tbl. 7. árg.

V

Samkvæmt nýjum stjórnarskrárdrögum ESB bendir allt nema nafnið til þess að verið sé að búa til Sambandsríki Evrópu.

illtustu draumar gallhörðustu fylgismanna Sambandsríkis Evrópu munu ekki rætast á næstunni ef marka má ný drög að stjórnarskrá Evrópusambandsins, en fleira jákvætt er tæplega hægt að segja um drögin. Í 15 mánuði hefur 105 manna ráðstefna undir forsæti Valery Giscard d’Estaing fyrrverandi Frakklandsforseta unnið hörðum höndum að því að skrifa stjórnarskrá Evrópusambandsins og þrátt fyrir að villtustu draumar samrunasinna virðist ekki ætla að ganga eftir þýðir það ekki að samrunasinnar hafi tapað slagnum og að aðrir geti hrósað sigri. Heldur betur ekki.

Áköfustu samrunasinnar kvarta yfir því að ekki sé notað orðið sambandsríki eða alríki, federal á ensku, yfir það sem nú heitir Evrópusambandið. Nafnið á fyrirbærinu er þó ekki það sem máli skiptir, heldur innihaldið. Ríki heita stundum furðulegum nöfnum sem enga eðlilega skírskotun hafa til eðlis ríkjanna. Þarf ekki annað en minna á Alþýðulýðveldið Kóreu þar sem alþýðan hefur ekkert að segja og gerir fátt annað en lepja dauðan úr skel undir sósíalistanum Kim Jong Il einræðisherra. Það er þess vegna nauðsynlegt að skoða eðli ríkisins eða ríkjasambandsins til að leggja á það mat og óhætt er að fullyrða að verði þau stjórnarskrárdrög sem nú liggja fyrir í Evrópusambandinu samþykkt, þá tekur við allt annars konar Evrópusamband.

Ýmsum hefur þótt nóg um samrunann innan Evrópusambandsins og yfirgang þessa sambands gagnvart aðildarríkjunum. Með þessum nýju drögum er gengið enn lengra, meðal annars með því að fækka verulega þeim sviðum þar sem ríki geta beitt neitunarvaldi. Þetta þýðir með öðrum orðum að meirihlutinn mun oftar geta knúið fram vilja sinn og ríki munu oftar þurfa að beygja sig undir vilja annarra ríkja. Þetta er vitaskuld sérstakt áhyggjuefni fyrir smærri ríki sambandsins, því þau hafa minna vægi í atkvæðagreiðslum og munu yfirleitt þurfa að sætta sig við þær ákvarðanir sem stóru ríkin koma sér saman um. Annað sem er mjög til þess fallið að draga úr vægi smærri ríkja innan Evrópusambandsins er tillaga um að kjörinn verði forseti Evrópusambandsins til 2½ árs í senn í stað þess að forsætið gangi milli ríkjanna á ½ árs fresti. Þetta mun leiða til þess að smærri ríkin hafa litla möguleika til að leiða Evrópusambandið, þau munu fátt gera annað en taka við ákvörðunum stóru ríkjanna.

Svo eru það utanríkismálin, þar kemur fram enn ein staðfestingin á því hvert stefnir. Samkvæmt drögunum verður skipaður sérstakur utanríkisráðherra Evrópusambandsins og ætlunin er að samræma utanríkisstefnuna enn frekar en orðið er.

Um hið nýja Evrópusamband má segja að ef ríki lítur út fyrir að vera sambandsríki, ef það hljómar eins og sambandsríki og ef það hegðar sér eins og sambandsríki, en það heitir ekki sambandsríki – þá er það samt sem áður sambandsríki.