Til er á Íslandi félagsskapur sem af og til reynir að framlengja tilveru sína með því að vekja á sér athygli með upphrópunum og stóryrðum. Þó félag þetta leggi sjaldan nokkurt gagnlegt til mála þá hefur því með þessari aðferð tekist að hjara lengur en margir hefðu búist við. Eins og kunnugt er hefur þetta félag, „Frjálslyndi flokkurinn“, einkum látið sjárvarútvegsmálaumræðuna njóta krafta sinna, en skiptir sér einnig af dægurmálefnum ef þar er athygli von. Fyrrum formaður þessa félagsskapar og helsti hugmyndafræðingur, Sverrir Hermannsson, skrifaði litla grein í Morgunblaðið á laugardaginn, og þó hún skipti litlu sem engu í stjórnmálalegu tilliti þá er hún nokkuð dæmigerð fyrir þann flokk sem Sverrir stofnaði utan um sig á sínum tíma. Í greininni ræðst þessi fyrrum formaður Frjálslynda flokksins á formann Sjálfstæðisflokksins fyrir að hafa samið svo við formann Framsóknarflokksins að sá skuli verða forsætisráðherra í fyllingu tímans.
Þetta telur Sverrir Hermannsson mikla ósvinnu þó hann útskýri reyndar ekki hvaðan sér komi ástæða til að hafa áhyggjur af því hversu ríkan eða rýran hlut sjálfstæðismenn hafa úr samningum við framsóknarmenn. En Sverri er sennilega bara svo ofboðið við þau fáheyrðu tíðindi að formaður Sjálfstæðisflokksins telji koma til álita að formaður Framsóknarflokksins verði forsætisráðherra, að hann kemur sér ekki til þess að skýra áhyggjur sínar og Frjálslynda flokksins af málinu. Sverrir Hermannsson trúir einfaldlega „ekki eigin eyrum þegar fréttir bárust um síðustu ráðstafanir formanns Sjálfstæðisflokksins í stjórnmálum.“ Já Sverrir er alveg gáttaður. „Að afhenda formanni Framsóknarflokksins forsætisráðherraembættið ótilneyddur er engum öðrum ætlandi“ segir Sverrir Hermannsson um formann Sjálfstæðisflokksins.
Engum öðrum ætlandi, nei? Þegar forsætisráðherraembættið færist til Framsóknarflokksins á næsta ári þá verður það ekki í fyrsta sinn sem framsóknarmaður leiðir ríkisstjórn þessara flokka. Síðast gerðist það á árunum 1983-1987 þegar fyrsta ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sat að völdum. Við þá stjórnarmyndun gafst Sjálfstæðisflokknum kostur á forsætisráðuneytinu og þáverandi formaður flokksins lagði til við þingflokkinn að því boði yrði tekið. Meirihluti þingmanna valdi hins vegar að hafna forsætisráðuneytinu en taka þess í stað fleiri fagráðuneyti. Um þessa atburði fjallar einn stjórnmálamanna þess tíma í ævisögu sinni, og segir þar meðal annars:
Málin voru ítarlega rædd í þingflokknum hvað stjórnarsamstarfið snerti og lá brátt ljóst fyrir, að sjálfstæðismenn áttu kost á því að fá sex menn í stjórn, en Framsókn fjóra fengi hún forsætisráðherrann. Fengju sjálfstæðismenn forsætisráðherrann yrðu ráðherrarnir fimm og fimm frá Framsókn. Um þetta fyrirkomulag, eða val á leiðum, var síðan atkvæðagreiðsla í þingflokki sjálfstæðismanna. Þá varð Geir fyrir einu stóráfallinu enn. Eins og fyrr hefur verið sagt, var næstum víst að hann næði ekki kjöri til þings, eftir að úrslit í prófkjöri flokksins lágu fyrir. Hann var því utan þings við að fást við að mynda ríkisstjórn með Framsókn, og hefði mátt búast við að þingflokksmenn hefðu talið nóg að gert gegn honum, fyrst með aðförum Gunnars og síðan í prófkjörinu. En þingflokkurinn hafnaði honum sem forsætisráðherra því niðurstaðan varð sex ráðherrar handa sjálfstæðismönnum og fjórir handa Framsókn og féll því forsætisráðherraembættið þeim í skaut. Áreiðanlega réð mestu um úrslit kosninganna í þingflokknum, að með þessari niðurstöðu var vissa fengin fyrir því í þingliði Sjálfstæðisflokksins. að þeir sextán sem vildu ráðherratign höfðu um fleiri sæti að keppa. Ég var einn í þeim hópi, og hlýt að játa að ég braut af mér gagnvart Geir með þeirri afstöðu. Þetta var að minni hyggju kannski eitt mesta áfall Geirs. |
Og hver er það sem svo lýsir eigin afstöðu og ástæðum hennar? Úr hvaða bók er þetta tekið? Hvaða bók? Nú auðvitað æviminningum Sverris Hermannssonar.
Já Sverrir Hermannsson, þessi sem telur það „engum öðrum ætlandi“ að „afhenda formanni Framsóknarflokksins forsætisráðherraembættið ótilneyddur“, hann var nú bara á fullu í að neyða þáverandi formann Sjálfstæðisflokksins, vængbrotinn Geir Hallgrímsson, til slíks þegar það gat aukið ráðherramöguleika Sverris sjálfs. Og skammar svo núverandi formann fyrir að hanga ekki á forsætisráðuneytinu eins og hundur á roði.
Og annað í grein Sverris er í sama stíl. Þannig ræðst hann með stóryrðum á formann Sjálfstæðisflokksins fyrir að hafa viðrað þá hugmynd að gerast fjármálaráðherra þegar hann skilar forsætisráðherraembættinu í hendur Halldóri Ásgrímssyni, og segir að með því sé hann að vega að „geðþekkasta og traustasta“ forystumanni sjálfstæðismanna, Geir Haarde, en Sverrir virðist hafa miklar mætur á honum. Þessi ásökun er jafn makleg og aðrar hjá Sverri, því formaður Sjálfstæðisflokksins tók fram að ef hann sjálfur yrði fjármálaráðherra, þá yrði Geir Haarde utanríkisráðherra og svarar það að fullu furðuspurningu Sverris: „Hvers á Geir Haarde að gjalda?“