Það sér það allt venjulegt fólk að undanfarnar vikur hefur forysta Samfylkingarinnar rekið mjög óvenjulega kosningabaráttu. Hefðbundin málefni hverfa eitt af öðru en áherslan er lögð á tvennt og aðeins tvennt: Reynt er skipulega að grafa undan því trausti sem forystumenn annarra flokka, og þá einkum formaður Sjálfstæðisflokksins, njóta, og fá meðul spöruð. Dylgjur, hálfkveðnar vísur og hreinar staðleysur ganga nú úr herbúðum Samfylkingarinnar sem virðist hafa tekið upp sama gæðaeftirlit og Jónas frá Hriflu hafði löngum á áróðri sínum: „Þetta gæti verið satt.“ Þetta er önnur áhersla Samfylkingarinnar. Hin er á kynferði frambjóðanda flokksins í 5. sæti annars Reykjavíkurkjördæmisins en umræddur frambjóðandi, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, virðist með öllu búin að afskrifa þann möguleika að hún verði kosin vegna annars en eigin kynferðis.
En þessi baráttuaðferð helgast sennilega af því að Samfylkingin hefur engin sérstök málefni. Þannig hefur einfaldlega tekist til við stjórn landsins undanfarin ár að þegar kemur að hefðbundnum málefnum þá er Samfylkingunni orða vant. En þar sem flokkurinn vill nú bjóða fram eftir sem áður, þá grípur hann til þess sem hendi er næst. Það blasir nefnilega við, að ef stjórn landsins hefði verið í handaskolum þá þyrfti stjórnarandstaðan ekki að berjast með þeim meðulum sem Samfylkingin notar þessa dagana. En staðreyndin er einfaldlega sú að Samfylkingin hefur ekki getað fundið nein raunveruleg vandamál sem kalla á það að hún verði kosin til valda.
„Gallinn við íslenska pólitík er sá að hér er ekkert að,“ skrifaði Hallgrímur Helgason í fyrrasumar. |
Nú má vera að einhverjir Samfylkingarmenn geti af trúarástæðum ekki tekið mark á staðhæfingu sem þessari, þegar hún kemur frá riti eins og Vefþjóðviljanum sem ekki er nema mátulega hrifið af núverandi forystu Samfylkingarinnar. En staðreyndirnar blasa engu að síður við öllum þeim sem ekki eru ráðnir í því að sjá þær ekki. Og þó einhverjir vilji ómögulega taka mark á orðum frjálslynds vefrits, þá kannski þykir þeim ástæða til að hugleiða orð sem hinn kunni rithöfundur, Hallgrímur Helgason, skrifaði síðastliðið sumar í það tímarit sem um áratugaskeið nefndist Tímarit máls og menningar. Þar lýsti Hallgrímur Helgason ástandi mála á Íslandi svo:
„Gallinn við íslenska pólitík er sá að hér er ekkert að. Við búum í fullkomnasta þjóðfélagi sem jörðin hefur nokkurn tíma séð. Allir hafa nóg að bíta og brenna. (Reyndar þarf alls enginn að bíta neinn né brenna neitt.) Tækifærin standa öllum opin. Rúllustigarnir í Leifsstöð flytja landann uppí allar heimsins vélar þrisvar á ári. Ef menn vilja gerast rithöfundar fá þeir 189.000 kr. á mánuði frá ríkinu hálft árið. Ef menn vilja læra tálknfræði í Austin, Texas greiðir Lánasjóður götu. Allar stofur eru 40 gráðu heitar. Enginn sest ósaddur við sjónvarpið. Og enginn fer ólesinn í háttinn. Þeir sem hrjóta eru látnir sofa með súrefnisgrímur. Annar hver gítargrípandi unglingur er á barmi heimsfrægðar. Forsetinn er ástfanginn. Það þykir vottur um fátækt ef menn láta sjá sig á þriggja ára gömlum bíl. Einstæðar mæður fá pössun um hverja helgi og krakkarnir nýjan pabba á mánudeginum. Á barnaheimilum eru börnin beðin um að slökkva á farsímunum sínum á meðan fóstrurnar lesa framhaldssöguna. Kæri Jón Baldvin. Er langt síðan þú komst til Íslands? Hér hefjast fréttatímarnir á lækkuðu verði á agúrkum og komu farfugla. Heitasta barátta dagsins er háð um ískalt grjót inná Öræfum. Á meðan sefur hver þjóðfélagsþegn í heitu rúmi. Öðruvísi okkur áður brá.“
Það er bara ekkert annað. „Hér er ekkert að.“ Við búum í „fullkomnasta þjóðfélagi sem jörðin hefur nokkurn tíma séð“. Og það er ekki Davíð Oddsson heldur Hallgrímur Helgason sem svo lýsir ástandinu á Íslandi. Það er kannski ekki von að Samfylkingin hafi fátt að segja sem íslenska kjósendur varðar um.