I
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lét breyta starfsreglum Félagsþjónustunnar í Reykjavík þannig að færri nytu stuðnings. |
ngibjörg Sólrún Gísladóttir var stödd á fundi í Borgarnesi fyrir rúmri viku þar sem hún sá ástæðu til að halda áfram röngum og órökstuddum söguburði um pólitíska andstæðinga sína. En þetta er ekki það eina sem Ingibjörg afrekaði í Borgarnesi, henni tókst líka að túlka nýútkomna bók Hörpu Njálsdóttur, Fátækt á Íslandi, sér í hag en ríkisvaldinu í óhag. Hún sagði „birtingarmynd fátæktar“ hafa versnað vegna þess að íslenska velferðarkerfið hefði verið að þróast í anda frjálshyggju, og auðvitað er sökudólginn að finna innan ríkisstjórnarinnar að mati þessa frambjóðanda Samfylkingarinnar.
Það er stundum árangursríkt í stjórnmálabaráttu að treysta því að enginn nenni að lesa bækur eða kynna sér mál með öðrum hætti. Þannig er hægt að halda svo að segja hverju sem er að fólki og fjölmiðlum og enginn gerir athugasemd. Ingibjörg er lagin við þess háttar stjórnmálabaráttu. Það vill þannig til að þegar menn taka sig til og lesa umrædda bók, þá er erfitt að túlka niðurstöðuna öðruvísi en þannig, að gagnrýnin beinist einna helst að tilteknum frambjóðanda Samfylkingarinnar, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.
Á blaðsíðu 180 í umræddri bók er tafla þar sem sýnt er hvernig bætur frá Tryggingastofnun ríkisins annars vegar og Félagsþjónustu Reykjavíkur hins vegar, þróuðust á árunum 1995 til 2000. Taflan sýnir greiðslur til lífeyrisþega að raunvirði, örorkulífeyri, tekjutryggingu og greiðslu frá Félagsþjónustu Reykjavíkur. Svo undarlega sem það nú kann að virðast miðað við málflutning Ingibjargar þá hækkuðu greiðslur ríkisins til lífeyrisþega um 31% á þessum árum en greiðsla Reykjavíkurborgar lækkaði um 32% á sama tímabili. Og það er rétt að taka fram að þessi þróun varð ekki vegna óviðráðanlegra ytri atburða; starfsreglum Félagsþjónustunnar í Reykjavík var breytt árið 1995.
En það eru ekki bara pólitískir andstæðingar Ingibjargar sem túlka staðreyndir með þessum hætti. Í bók Hörpu segir: „Hér er dregin sú ályktun að vaxandi ásókn til hjálparstofnana vegna fátæktar hafi m.a. aukist eftir að Félagsþjónustan í Reykjavík þrengdi verulega heimildarbætur, m.a. skyndiaðstoð/neyðaraðstoð sem verið hafði til fjölda ára, þ.e. eftir breytingar á starfsreglum 1995.“ Ingibjörg lét það sem sagt verða eitt af sínum fyrstu verkum í stóli borgarstjóra að breyta starfsreglum Félagsþjónustunnar í Reykjavík þannig að færri nytu stuðnings þaðan og fleiri þyrftu því að leita til félagasamtaka á borð við Mæðrastyrksnefnd. Og fyrir fáeinum vikum tók hún svo þátt í þeirri aðgerð meirihlutans í borgarstjórn að skerða rekstrarstyrk borgarinnar til Mæðrastyrksnefndar um fjórðung. Eftir þessar skerðingar kemur hún svo þungbrýnd fram á sjónarsviðið og lætur eins og hún hafi óskaplegar áhyggjur af vaxandi fátækt í þjóðfélaginu.