Alkunna er að sveitarfélög á Íslandi hafa haldið lausar um sveitarsjóði en ríkið um ríkissjóð. Sveitarfélög safna skuldum á meðan ríkið greiðir niður skuldir og útgjöld sveitarfélaga aukast hraðar en útgjöld ríkisins. Að hluta til stafar þetta af því hverjir halda um stjórnvölinn á hvorum staðnum, en að hluta til af því að sveitarstjórnarmenn eiga erfiðara en alþingismenn með að standast þrýsting þeirra sem sækja í opinbera sjóði. Þetta fyrirbæri þekkist einnig erlendis. Í Bandaríkjunum var 9% raunaukning útgjalda hjá alríkinu á árunum 1992-2000, en raunaukning ríkjanna fimmtíu var yfir 25% á sama tímabili.
Í grein á vef Cato-stofnunarinnar bandarísku er reyndar ekki gefin sú skýring á þessum mun að alríkið eigi auðveldara en ríkin með að standa gegn þrýstihópum. Þess í stað er líkum leitt að því að ástæða þessa munar sé hallarekstur alríkisins á tímabilinu á meðan ríkin hafi verið rekin með afgangi, enda sé mælt fyrir um það í stjórnlögum 49 ríkja af 50. Kenningin um að hallarekstur haldi aftur af útgjaldaaukningu hins opinbera getur ekki skýrt muninn á ólíkri útgjaldaaukningu ríkis og sveitarfélaga hér á landi, því ríkissjóður hefur verið rekinn með afgangi sex undanfarin ár. Og ekki verða færðar sönnur á það hér að meiri nálægð við þrýstihópa hafi gert ríkjunum í Bandaríkjunum erfiðara fyrir en alríkinu að halda aftur af útgjöldum, þó leiða megi líkum að því að það hafi einnig haft áhrif.
Sú kenning að hallarekstur opinberra sjóða, hvort sem er ríkissjóðs, sveitarsjóða eða sjóða af öðrum stjórnsýslustigum erlendis, dragi úr útgjaldaaukningu er hins vegar athyglisverð. Andstæðingar aukinna ríkisútgjalda hafa stundum talað fyrir því að sett verði fyrirmæli í stjórnarskrá um að banna hallarekstur ríkissjóðs, en ef rétt er að hallareksturinn leiði til aukins aðhalds í útgjöldum, er hóflegur hallarekstur þvert á móti eftirsóknarverður. Það er mun skárra að búa við lítils háttar halla af rekstri hins opinbera ef það má verða til að draga úr útgjöldunum, en að hið opinbera sé rekið með afgangi en þenjist hratt út.