Il n’y de nouveau que ce qui est oublié! |
Þetta svar segja þeir að Marie-Antoinette hafi fengið frá einni hirðmeyju sinni þegar drottningin spurði hana hvort hún væri á nýjum kjól. „Ekkert er nýtt, nema það sem fólk hefur gleymt“ á hirðmærin að hafa sagt og er ekki vitlausara en flest það sem eftir drottningu hennar hefur verið haft um dagana. Hversu oft verða menn ekki undrandi að óþörfu. Hversu oft hefði ofurlítið minni ekki sparað mörgum gap og hársvarðarklór. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, svo dæmi sé tekið, hann var standandi hlessa þegar DV talaði við hann í vikunni, en þá hafði hann nýfengið þær fréttir að ekkert yrði af fyrirhuguðum kappræðum hans og frambjóðanda Samfylkingarinnar í Reykjavík, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. „Ég var reyndar beðinn að mæta henni í kappræðum í Kastljósi annað kvöld en var áðan tilkynnt að af því gæti ekki orðið“ sagði Halldór í DV og bætti hálfundrandi við: „Ég skil nú ekki í talsmanni flokks að skora á menn út og suður í kappræður og mæta svo ekki.“
Nei, Halldór Ásgrímsson er bara hissa, rétt eins og það sé eitthvert samhengi milli þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir samþykki að mæta mönnum í kappræðum og þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mæti þeim í kappræðum. Hann er bara steinhissa á frambjóðendum sem „skora á menn út og suður í kappræður og mæta svo ekki.“
Hérna hefði svolítið minni hjálpað Halldóri, því hann er ekki sá fyrsti og eflaust ekki sá síðasti sem grípur í tómt þegar hann ætlar að eiga orðastað við núverandi „talsmann Samfylkingarinnar“. Þessi saga er nefnilega fjarri því að vera ný, þó Halldór Ásgrímsson sé steinhissa og fréttamenn láti eins og ekkert sé. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var ekki einu sinni orðin borgarstjóri þegar væntanlegir mótherjar hennar voru farnir að furða sig á því hversu oft hún var bara alls ekki mætt þegar ræða átti einhver málefni. Meira að segja Markús Örn Antonsson fór fýluferðir á fjölmiðla þegar honum hafði verið stefnt þangað til kappræðna við væntanlegt borgarstjóraefni vinstri manna, eins hann lýsti á sínum tíma. Þannig greindi hann frá því að í marsmánuði árið 1994, tveimur mánuðum fyrir borgarstjórnarkosningar, hefði hann tvívegis haldið glaðbeittur á Stöð 2 þar sem hann hefði átt að ræða borgarmál við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, borgarstjóraefni vinstri flokkanna. Í fyrra skiptið hefði hann farið gersamlega tómhentur heim, í hitt skiptið hefði húsfreyjan á Höllustöðum II mætt, frekar en enginn.