„Ég held að það sé aðeins ein leið fær. Það er sama leið og foreldrar fara þegar þeir þurfa að hemja eyðslu barna sinna. Þeir minnka við þau vasapeninginn. Þegar ríkið er annars vegar þýðir þetta einfaldlega að lækka þarf skatta.“ |
– Milton Friedman Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði í The Wall Street Journal 15. janúar 2003. |
Nú virðast tveir skólar takast á um hvernig eigi að bregðast við svonefndri þenslu í efnahagslífinu næstu árin. Annar vill lækka skatta á einstaklinga og hvetja þá þannig til að auka við sig vinnu. Með auknum tekjum geti einstaklingarnir grynnkað á skuldum sínum og búið í haginn. Hinn skólinn vill hækka skatta til að fólkið í landinu eyði ekki auknum tekjum í „innfluttan lúxus“. Svo skemmtilega vill til að núverandi stjórnarmeirihluti á Alþingi er hallur undir annan skólann en stjórnarandstöðuflokkarnir hinn.
Bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa heitið því að nýta það svigrúm sem þeir telja sig hafa lagt grunninn að í ríkisfjármálum til að lækka skatta. Hafa báðir flokkar lofað að lækka tekjuskatt einstaklinga um nokkra hundraðshluta í viðbót við það sem þeir hafa áður gert. Þessi lækkun kæmi öllum skattgreiðendum til góða og er virkasta leiðin til að draga úr jaðaráhrifum skattkerfisins. Eins og Milton Friedman hefur svo oft bent á þá eru skattalækkanir prýðileg leið til að hemja vöxt hins opinbera. Og fátt er mikilvægara í „þenslu“ en að hið opinbera haldi að sér höndum.
Á sama tíma og stjórnarflokkarnir kynna tillögur sínar um skattalækkanir kynna stjórnarandstöðuflokkarnir óljósar hugmyndir um að fjölga skattþrepum í tekjuskattskerfinu og tillögur um að hækka ýmsa aðra skatta. Hugmyndir þeirra um fjölgun þrepa eru jafn óljósar og þær voru þegar sömu flokkar settu þær í stefnuskrár sínar fyrir síðustu kosningar.
Það er jafnframt merkilegt við þessa umræðu um viðbrögð við „þenslunni“ að þeir sem vilja ekki lækka skatta til bregðast við henni hafa einnig verið andvígir því að lækka skatta þegar þrengir að í efnahagslífinu því þá megi ekki „veikja tekjugrundvöll ríkissjóðs“ eða eitthvað. Þeir vilja með öðrum orðum aldrei lækka skatta.