Miðvikudagur 2. apríl 2003

92. tbl. 7. árg.

Sem kunnugt er var einkadans bannaður með lögreglusamþykkt og voru sjálfskipaðir forsjármenn nektardansara í sveitarstjórnum landsins afar upp með sér að því tilefni. Enda ættu dansarar nú minni möguleika að afla sér tekna sem hver maður hlýtur að sjá að er þeim mjög í hag.

Nú er að sjá hvort lögreglusamþykkt verður notuð til að banna svonefndar erótískar nuddstofur sem hafa verið fréttamatur umfram aðrar nuddstofur síðustu daga. Ef nuddstofurnar verða bannaðar, vafalaust við mikinn fögnuð margra sveitarstjórnarmanna, munu án efa skjóta upp kollinum þvottahús og fatahreinsanir þar sem þú mætir á staðinn í fötunum og bíður á meðan fáklæddir þvottakallar og kellingar þvo leppana af þér og skólpa það mesta af þér í leiðinni. Allt þar til dómsmálaráðherrann og sveitarstjórnirnar mæta með nýja lögreglusamþykkt um fatahreinsanir og þvottahús. Bókasafnsverðir hafa lengi beðið færis á að hleypa spennu í starf sitt og hver segir að menn þurfi að vera í svartri rúllukragapeysu á meðan bókin er valin með góðri hjálp? Svo verða stofnuð fyrirtæki sem bjóða fólki að fagna þjóðhátíðardögum hinna ýmsu landa í sannkallaðri karnívalstemmningu.

Það sem menn ættu hins vegar að huga að áður en fleiri lögreglusamþykktir verða gefnar út undir lófaklappi sveitarstjórnarmanna er hvort það sé raunhæft verkefni fyrir yfirvöld að komast upp á milli tveggja einstaklinga sem vilja eiga náin kynni af fúsum og frjálsum vilja. Hvorugur þeirra kærir sig um afskipti yfirvalda. Hverjum er þá verið að þjóna með því að banna kynni þeirra?