Vinstrigrænir héldu mikinn flokksfund í gær og virðast nú hafa náð vopnum sínum. Nú ætla þeir aldeilis að taka fast á og stefna að því að vinna marga góða áfangasigra á næsta kjörtímabili. Þeirra helstu mál eru nú gríðarleg fjölgun íbúðarhúsnæðis í eigu ríkisins og opinberir leikskólar sem ekkert kostar inn í. Þeir vilja að sem flestir búi í íbúðum sem ríkið á og sendi síðan börn sín til geymslu og uppeldis í opinbera leikskóla. Ekki gangast þeir reyndar við því að vilja þjóðnýtingu en hver veit hvað gert yrði ef þeir fengju að ráða. Þeir hafa að minnsta kosti verið á móti allri einkavæðingu og því má ætla að þeir hafi annað hvort talið eignarhald ríkisins á fyrirtækjum nákvæmlega á réttu róli eða þá að þeir vilji fremur að það verði aukið. Nú finnst vinstrigrænum eflaust að þetta sé ekki sanngjörn útfærsla á málflutningi þeirra, og þá það. En með hæfilegri ósanngirni má meira að segja ímynda sér að Morgunblaðið hafi fyrirfram komist á snoðir um það hvað Steingrímur J. Sigfússon og félagar ætluðu að boða á flokksráðsfundinum í gær, og birt frétt um fundinn á forsíðu sinni samdægurs.
VVinstri flokkarnir tveir, Vinstrihreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin, eru lítið fyrir að nýta sér kosti séreignarréttarins, en mikið fyrir að ríkið sé með fingurna í sem flestu. Hefur þetta komið vel í ljós í afstöðu þeirra beggja til einkavæðingar ríkisfyrirtækja þó nokkur blæbrigðamunur sé á framsetningu þessarar afstöðu; annar flokkurinn bæði segist vera á móti og er það í verki, hinn lætur sér nægja að vera á móti í verki. Vegna þessarar vantrúar vinstri manna á séreignarréttinum hafa þeir náð saman um að fordæma kvótakerfið í sjávarútvegi, þar sem kostir séreignarréttarins eru nýttir með góðum árangri. Ef marka má yfirlýsingar forystumanna beggja flokkanna í nýliðinni viku vilja flokkarnir kerfið feigt, þó vitaskuld sé nokkuð á reiki hvað á að koma í staðinn. Þó liggur fyrir að þeim líst vel á að auka áhrif stjórnmálamanna í sjávarútvegi og langar mikið til að sjá úthlutunarvald sjávarútvegsráðherra aukast stórum.
Össur Skarphéðinsson sagði á fundi á Ísafirði í vikunni, þar sem hann og talsmaður hans Ingibjörg Gróa Gísladóttir „boðuðu afnám kvótakerfisins“ að því er fram kom í Morgunblaðinu, að hann vildi láta „úthluta ríflegum byggðakvóta“. Steingrímur J. Sigfússon er sömu skoðunar, hann boðar nú að þriðjungur úthlutaðs kvóta á hverju ári verið byggðakvóti, en nú er byggðakvóti sáralítið hlutfall úthlutaðs kvóta.
Hvað halda menn að gerðist ef „ríflegum byggðakvóta“ yrði komið í hendur vinstri stjórnar til úthlutunar eftir þeim duttlungum sem þar myndu ráða? Og hvar eru nú yfirlýstar áhyggjur Samfylkingarinnar af íhlutun ríkisins í atvinnulífið? Halda Össur og Ingibjörg Gróa að draga myndi úr afskiptum stjórnmálamanna af atvinnulífinu ef þeir færu að úthluta „ríflegum byggðakvóta“? Trúa þau því að við slíkar aðstæður myndu biðstofur ráðuneyta ekki fyllast á ný og verða svipaðar og þær voru í tíð síðustu vinstri stjórnar, þegar forstjórar eyddu miklum tíma í að særa fé út úr ríkisstjórninni en of litlum í rekstur fyrirtækja sinna?
Auðvitað vita þau betur. Auðvitað er þeim fullljóst að ef þau komast í ríkisstjórn og fá aukið úthlutunarvald í sjávarútvegi geta þau handstýrt afkomu fjölda fyrirtækja og þannig haft miklu meiri völd í atvinnulífinu en nú þekkist. Vinstri menn stefna augsýnilega að U-beygju; þeir vilja snúa af þeirri braut að draga úr völdum ríkisins í atvinnulífinu.