Hún hefur í raun enga eigin stefnu. Hún hefur í raun ekkert sérstakt fram að færa. Öll hennar stefna er sífelld leit að því sem hún heldur að kjósendur vilji heyra hverju sinni. Þegar allt kemur til alls er engin skynsamleg ástæða fyrir fólk að kjósa Samfylkinguna skyndilega yfir sig. Og þar sem forysta Samfylkingarinnar áttar sig á því að í raun hefur hún ekkert raunverulegt að bjóða fólki, svo það kjósi hana nú til valda, þá reynir hún þess í stað allt sem hún getur til þess að skapa tortryggni í garð andstæðinga sinna. Á undanförnum vikum hefur Samfylkingin boðið upp á bæði hefðbundnar árásir en ekki síður gróusagnaherferð á óvenjulegu stigi sem pistlahöfundar og velviljaðir fjölmiðlar eru svo látnir kynda undir. Forsöngvari hefur verið hinn nýi „leiðtogi“, þessi sem ekki einn einasti flokksmaður hefur valið sem leiðtoga Samfylkingarinnar, Ingibjörg Gróa Gísladóttir, en framganga hennar hefur undanfarnar vikur stöðugt orðið verri í dag en í gær.
Samfylkingarforystan reynir nú allt sem hún getur til að koma því inn hjá landsmönnum að á Íslandi tíðkist einhver mikil og hættuleg afskipti stjórnmálamanna af atvinnulífinu. Því er þannig stöðugt haldið fram að höfuðandstæðingurinn, hinn illi Sjálfstæðisflokkur, beiti öllum brögðum til að hafa áhrif á gang viðskiptalífsins. Þessu er haldið fram statt og stöðugt og því ákafar sem staðreyndir benda til hins gagnstæða, enda hefur það að undanförnu verið eitt helsta karlmennskumerki Samfylkingarinnar hversu mjög forystumenn hans herðast þegar þeir mæta staðreyndum. Reyndar eru undantekningar á karlmennskunni því áðurnefndur höfuðleiðtogi er sjaldan djarfari en svo að þegar hún er krafin skýringa og rökstuðnings hörfar hún í það vígi að segjast reyndar sjálf ekki trúa þeim sögum sem hún segir; málið sé bara því miður það að einhverjir aðrir trúi þeim og þess vegna verði strax að skipta um forsætisráðherra.
Sérstaklega er hlálegt að hlusta á Samfylkingarforystuna og blaðamenn hennar halda því fram að hinn illi Sjálfstæðisflokkur reyni að nýta ríkisvaldið til þess að tryggja sér ítök í bankakerfinu! Þegar kemur að stjórnmálaflokkunum og bankakerfinu vill nefnilega svo vel til að menn þurfa ekki eingöngu að horfa til sagnagerðar Ingibjargar Gróu Gísladóttur og fjölskyldu heldur blasa staðreyndir við öllum þeim sem sjá vilja. Það er facta að það var Sjálfstæðisflokkur Davíðs Oddssonar sem barðist árum saman fyrir því að ríkið seldi eign sína í viðskiptabönkunum. Það er einnig facta að það var Alþýðuflokkur Jóns Baldvins Hannibalssonar, Össurar Skarphéðinssonar og Jóhönnu Sigurðardóttur sem hindraði þau áform svo lengi sem hann hafði aðstöðu til. Ekki þarf svo að fjölyrða um afstöðu Alþýðubandalags Ólafs Ragnars Grímssonar og Steingríms J. Sigfússonar. Staðreyndirnar eru einfaldar og tala sínu máli. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem barðist fyrir því að stjórnvöld misstu þau gríðarlegu áhrif sem þau höfðu á viðskiptalífið með eign sinni á Landsbanka og Búnaðarbanka. Og það voru Samfylkingarmenn sem reyndu að halda þessum áhrifum hjá stjórnmálamönnum eins lengi og þeir gátu. Þegar Samfylkingarforystan, sem barðist gegn því að bönkunum yrði komið úr ríkiseigu, kemur og ásakar Sjálfstæðisflokkinn, sem hafði allt frumkvæði að því að ríkið seldi þessa banka, um að reyna að nota ríkið til að hafa áhrif á viðskiptalífið, þá er það slík ósvífni gagnvart dómgreind og minni kjósenda, að það er með hreinum ólíkindum.
Eins og flestir vita var Samband íslenskra samvinnufélaga eitt alöflugasta fyrirtæki síðustu aldar á Íslandi og hafði veruleg áhrif á stjórnmálaþróunina, svo nátengt var það Framsóknarflokknum. Á tíunda áratugnum fór hins vegar svo að veldi þess hrundi því sem næst til grunna og varð uppgjör Sambandsins og viðskiptabanka þess, ríkisbankans Landsbanka Íslands mikið og flókið. Nú myndi einhver halda að stjórnvöld – þessi sem andstæðingarnir þreytast ekki á að saka um tilraunir til að skipta sér af málefnum fyrirtækja í landinu – hafi beitt sér af þunga í því máli og átt auðvelt með enda Landsbankinn að fullu í eigu ríkisins. En einnig hér tala staðreyndir sínu máli Á dögunum gáfu Sögufélag og „Áhugahópur um samvinnusögu“ út bók sem nefnist Samvinnuhreyfingin í sögu Íslands sem byggð er á fyrirlestrum sem hinn kunni sagnfræðingur, Helgi Skúli Kjartansson, hélt nýlega um þátt samvinnuhreyfingarinnar í sögu landsins. Þar segir Helgi Skúli meðal annars:
„Endalokin á rekstri Sambandsins urðu a.m.k. merkilega ópólitísk. Í miðjum þeim klíðum urðu stjórnarskipti, Framsóknarflokkurinn hvarf úr stjórn og inn kom Sjálfstæðisflokkur Davíðs Oddssonar, án þess að það hefði nein merkjanleg áhrif á málefni Sambandsins.“ |
Og þegar málið hafi verið skoðað eftir á, þá „komu ekki úr kafinu nein stórpólitísk plott“. Það hafi einfaldlega verið „sniðugir fagmenn í hinum og þessum deildum Landsbankans sem brugðust svona og svona við fjármálaflækjum málsins.“
En þessu trúa ekki gróurnar, pandórurnar og bergvinirnir í Samfylkingunni. Þau munu alltaf reyna að koma því inn hjá fólki að hinn illi Sjálfstæðisflokkur hugsi helst um það að nýta ríkisvaldið til að hafa áhrif á viðskiptalífið. Og ef í eitt skipti af tíu þau eru krafin skýringa eða rökstuðnings, nú þá er alltaf sá kostur að segjast ekki trúa sjálf á þessar kenningar, þau séu bara að segja frá því sem „verið er að tala um úti í bæ“. Þau séu „bara sendiboðar“ og ekki vilja menn nú fara að skjóta sendiboðann, er það nokkuð? Ha?