Þriðjudagur 25. febrúar 2003

56. tbl. 7. árg.

Þeir eru klókir hjá Íslensku óperunni, útsmognir í viðskiptum og leiftursnöggir að sjá sterkasta leikinn hverju sinni. Að undanförnu hafa þeir sýnt óperuna Makbeð fyrir fullu húsi og við mikið lof, en hafa nú ákveðið að þegar sýningarnar verða orðnar átta þá sé nóg komið og sú ópera ekki frekar sungin af þeirra hálfu hversu mjög sem eftir verði leitað. Ekki mun skýringin vera sú að þeir hafi áttað sig á því, að rétt eins og lafði Makbeð sjálf myndi sýningin deyja samt þó síðar yrði, og því jafngott að hætta strax, heldur mun þannig hátta til að þó hvert sæti sé jafnan skipað þá tapar óperan meira en milljón krónum á hverri sýningu. Hefðu nískari menn sjálfsagt verið hættir fyrr, en þessi mikli kostnaður mun einkum skýrast af því hversu mikið er haft við, en rúmlega 150 starfsmenn munu koma að hverri sýningu. „Við höfum ekki efni á að hafa fleiri sýningar“ segir Bjarni Daníelsson óperustjóri í Morgunblaðinu í gær. „Ástæðan er sú að við erum ekki með nema tæplega 500 sæti. Ef við værum með 750 sæti væri þetta ekki vandamál og við gætum haldið áfram að sýna eins lengi og áhugi væri á sýningunni.“

Bjarni þessi hefur þó tillögu til lausnar á þessum vanda. Hann vill að óperan fái inni í tónlistarhúsi því sem ráðamenn hafa hótað að reisa í miðborg Reykjavíkur. Hins vegar hafi þessi snjalla hugmynd ekki fengið hljómgrunn hjá yfirvöldum sem hafi tekið upp hjá sjálfum sér að athuga hvort óperan geti fengið aðstöðu í Borgarleikhúsinu, sem einhverjum þykir ef til vill nothæft hús. En óperumenn eru ekki uppveðraðir af þeirri hugmynd, eða eins og Bjarni Daníelsson segir svo hógværlega: „Við teljum góð rök fyrir því að við eigum að vera í tónlistarhúsinu og höfum ekki áhuga á að ræða aðra möguleika.“

Nei, óperumenn hafa ekki áhuga á að ræða aðra möguleika. En aðrir möguleikar eru vitaskuld ýmsir, þó hvorki óperustjórinn né blaðamaður Morgunblaðsins hafi áhuga á að ræða þá. Morgunblaðinu tókst að minnsta kosti í gær að fjalla um þetta alvarlega mál í ýtarlegri baksíðufrétt án þess að velta því einu sinni fyrir sér hvort ástæða gæti verið til þess að hugleiða, þó ekki væri annað, að hækka miðaverð á hina vinsælu sýningu. Miðað við þær tölur sem óperustjórinn gaf upp má ætla að syngja megi Makbeð til eilífðar, svo lengi sem áhorfendur skila sér, ef miðaverð er hækkað um 50 %. En svo fjarri virðist það menningaráhugafólki að borga nokkuð nálægt sannvirði inn á sýningu, að fyrr hættir óperan sýningum en að láta reyna á það, hvað þá meira, hvort fólk sé reiðubúið að greiða hærri aðgangseyri.

En á sama tíma og það virðist ekki hvarfla að óperuáhugamönnum að hækka miðaverðið – og vel að merkja þá nýtur óperan töluverðra opinberra styrkja svo miðaverðið yrði aðeins hluti af raunverulegum kostnaði við hverja sýningu – þá finnst þeim ekkert sjálfsagðara en að skattgreiðendur reisi yfir þá tónlistarhöll. Þeir eru með öðrum orðum ekki reiðubúnir að greiða hærra verð sjálfir fyrir sín áhugamál en krefjast þess hins vegar að allir aðrir verði skyldaðir til stóraukinna framlaga til þessara sömu áhugamála.

Og þeir sjá ekkert athugavert við það.