Mánudagur 24. febrúar 2003

55. tbl. 7. árg.

Nei, það eru ekki allir eins. Meðal þeirra sem skera sig frá fjöldanum er borgarfulltrúinn Dagur B. Eggertsson sem gnæfir yfir samborgara sína eins og Himmelbjerget yfir dönskum völlum. Hann er nútímalegur og framsýnn, enda hefur hann ætíð borið af öðrum um þroska og visku. Hvert viðtal við Dag er því happafengur fyrir almúgann sem tekur fegins hendi hverju færi sem gefst til að kynnast hugarheimi hans og sjá hvað það er sem hefur gert hann að þeim manni sem hann er. Eitt slík færi gafst nú á laugardaginn en þá gaf Dagur Fréttablaði Samfylkingarinnar kost á stuttu viðtali. Hefst viðtalið á þessum skemmtilegu orðum Dags:

„Eftir að hafa lesið Vefarann mikla frá Kasmír greip ég þá hugmynd mjög sterkt á lofti að það væri mjög dyggðum prýdd og góð leið að stæla viljann og verða að betri manni að stunda skírlífi. Þannig myndi ég feta í fótspor Steins Elliða, þessa höfuðsnillings.“

Ekki þarf að efa að þessi ákvörðun Dags hefur vakið úlfúð og ólgu meðal stúlkna í Árbænum og nærliggjandi hverfum en sem betur fór stóð þetta ófremdarástand stutt yfir. Eða eins og segir í viðtalinu:

„Dagur las Vefarann mikla frá Kasmír þegar hann var um tíu ára. Hann segist hafa verið frekar seinþroska en skírlífið stóð engu að síður stutt yfir.“

Þá veit venjulegt fólk það. Um tíu ára gamall las Dagur B. Eggertsson Vefarann mikla og strengdi skírlífsheit. Skömmu síðar var það skírlífi úti en önnur viðfangsefni tekin við. Síðan hefur Dagur einnig lagt stund á pólitískt skírlífi en þessi borgarfulltrúi R-listans og fyrrum stúdentaráðsformaður Röskvu hefur allra manna mest lagt áherslu á það að hann fylgi engum pólitískum flokki að málum öðrum en sjálfum sér. Reyndar hefur nokkuð dregið úr pólitísku skírlífi Dags á síðustu mánuðum, eftir því sem hann hefur gengið lengra í hagsmunabaráttu Ingibjargar Pandóru Gísladóttur frá Leiti. Hefur hann í þeim tilgangi meðal annars með öllu horfið frá þeirri sannfæringu sinni, sem hann hafði meðal annars lýst í hástemmdri og greinargóðri Morgunblaðsgrein að það væri lykilspurning um trúverðugleika hvort Ingibjörg Pandóra stæði við yfirlýsingar sínar um að helga sig borgarstjórastarfi og gefa ekki kost á sér til Alþingis nú í vor. En eins og alþjóð er kunnugt var Dagur skotfljótur að gleypa sín fyrri orð og það með bestu lyst.

Þó ekki sé allt rétt sem kemur frá hinum nútímalega stjórnmálafrömuði, Degi B. Eggertssyni, þá er það rétt hjá honum að í Vefaranum mikla frá Kasmír boðaði Steinn Elliði Grímúlfsson meðal annars skírlífi. Þessi persóna, sem Dagur B. Eggertsson kallar höfuðsnilling og sór eið að líkjast, hann boðaði skírlífð af talsverðri mælsku í 37. kafla bókarinnar. En í sama kafla, í sama bréfi, lagði hann lærisveinum sínum fleiri hollráð sem spurning er hvort Dagur B. Eggertsson hefur tamið sér af sama viljastyrk:

„Í fornöld þoldu menn píslarvætti fyrir sannfæríngu sína. Píslarvættisæðið geisaði hvað eftir annað einsog drepsótt. Menn lögðust á pínubekkinn í lostugri gleði. Ég fyrirlít þessar kvalalostugu tilheigíngar fornmanna, þær eru öfughneigð, ónáttúra. Ég fullvissa yður um að ég mun ekki taka í mál að láta brytja mig niður vegna sannfæríngar minnar. Ég kýs heldur að ljúga fimm hundruð lygum og lifa, en að láta sefaveila þrá til þess að gaspra um sannfæríngu mína fyrir einhverjum ómerkilegum dómstól, eða á strætum og gatnamótum, verða mér að aldurtila. Sá sem ekki er slægur einsog naðra verðskuldar ekki að eiga áhugamál. Jafnskjótt og einhver gerræðismaðurinn krefst skal ég éta alt ofaní mig í dag sem ég sagði í gær; ég mundi jafnvel ekki víla fyrir mér að biðja fyrirgefníngar. En ég tek aftur til óspiltra málanna á morgun, og byrja þar sem fyr var frá horfið, aðeins á heppilegri stað, þar sem ég veit mig óhultan fyrir því að óvinirnir nái að fremja á persónu minni helgispjöll. Vei þeim manni sem þykist berjast fyrir hugsjón á vorum tímum og kann ekki að villa á sér heimildir! Hann er fallinn áður en á hólminn kemur.“