Fimmtudagur 20. febrúar 2003

51. tbl. 7. árg.

Framsóknarflokkurinn er mikil ráðgáta þeim sem standa til hægri eða vinstri í stjórnmálum, og þá aðallega af því að honum tekst að vera bæði til hægri og vinstri á sama tíma. Drög að stefnuskrá flokksins hafa nú verið lögð fram og kennir þar margra grasa sem ýmsir geta glaðst yfir. Reyndar er það svo að varla finnst sá maður sem ekki getur glaðst yfir einhverju sem í drögunum er að finna. Drögin bera það með sér að gera á allt fyrir alla, eða svona hér um bil, og það er svo sem ekkert sem koma þarf á óvart; kosningar eru í nánd og þá vilja stjórnmálaflokkar hafa kjósendur glaða.

Í drögunum er að finna nokkur stefnumál, sem beint er til þess barnafólks sem vill að aðrir létti undir með því. Má þar til að mynda nefna tillögu um afnám virðisaukaskatts af barnafötum, sem hinn ungi hugsjónamaður og varaþingmaður Framsóknarflokksins, Páll Magnússon, hefur fjallað um á Alþingi. Þá er lagt til að ótekjutengdar barnabætur verði hækkaðar, auk þess sem frítekjumark barnabóta verði hækkað. Á sama tíma á að hækka persónuafslátt einstaklinga og létta skattbyrði af fólki með lágar tekjur og meðalháar. Ekki er tilgreint sérstaklega hvernig fjármagna eigi auknar bætur til barnafólks, en það verður tæplega gert með því að létta skattbyrði af nánast öllum öðrum.

Þá er að finna skemmtilega tillögu um að tóbak og áfengi skuli fara út úr grunni neysluverðsvísitölunnar. Eftir það yrði vísitalan ekki lengur mæling á almennri verðbólgu en myndi þess í stað mæla verðbólgu heilbrigða fólksins, þess sem hvorki reykir né drekkur. Hingað til hefur grunnur vísitölunnar einfaldlega verið þær vörur sem almenningur neytir og af því er nafngiftin dregin. Nái tillagan um breyttan grunn fram að ganga verður hægt að hækka verð á tóbaki og áfengi án þess að það hafi áhrif á mælda verðbólgu, og þá fyrst munu Íslendingar fá að kynnast áfengis- og tóbaksverði sem tekur hraustlega í budduna. En fyrst framsóknarmenn eru þeirrar skoðunar að vísitala neysluverðs eigi að lýsa afstöðu til æskilegrar neyslu en ekki mæla raunverulega neyslu er eðlilegt að gengið verði lengra. Miðað við aðrar tillögur er þess vegna rétt að barnaföt, barnamatur og barnaleikföng – svo fátt eitt gott sé nefnt – skuli vega margfalt í vísitölunni, því þannig mætti draga úr líkum á hækkun þessara vara.

Landsbyggðartillögurnar eru líka á sínum stað. Þær gera meðal annars ráð fyrir að Byggðastofnun fái meira fé, sem líklega stafar af því að það fé sem eytt hefur verið í nafni byggðastefnu hingað til hefur ekki skilað árangri og þess vegna er um að gera að eyða meiru í sama skyni. Þá er í drögunum sagt að nýjar stofnanir skuli verða staðsettar á landsbyggðinni. Öllu æskilegra hefði verið að sjá hugmyndir í þá veru að engum nýjum stofnunum yrði komið á fót, hvort sem væri á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og nefnt var hér að framan er það þó ekki svo að allt sé á sömu bókina lært í drögum að stefnuskrá Framsóknarflokksins. Þó flokkurinn vilji eyða meiru í hitt og þetta er lagt til að erlendar skuldir verði áfram greiddar niður, að ráðdeild í opinberum rekstri verði aukin og að haldið verði áfram með einkavæðingu fyrirtækja á samkeppnismarkaði. Einnig er lagt til að ráðuneytum verði fækkað og er það æskilegt markmið, þó hætt sé við að það verði afgangsstærð þegar þingmenn fara að reyna að krækja í ráðherrastóla eftir kosningar.