Miðvikudagur 19. febrúar 2003

50. tbl. 7. árg.
Það hylla fleiri heimskan glóp
en hinn, sem lengra sér.
Því gerir meðalmennskan hróp
að manni eins og þér.
 – Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, Brautryðjandinn

Óvenjulegur og atorkusamur. Eiginlega óvenjulega atorkusamur. Ætli þar með séu ekki upptaldar þær einkunnir sem flestallir, sem kunna að hafa skoðun á málefninu, geta orðið sammála um að gefa prófessor dr. Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni. Jú og flestir munu kalla hann frjálshyggjumann og helsta málflytjanda hennar á Íslandi á ofanverðri tuttugustu öld, hvort sem þeir kunna honum nú miklar eða litlar þakkir fyrir það starf. Og það vantar ekki, hinir síðarnefndu eru heldur betur háværari en hinir, en í full þrjátíu ár hefur Hannes fengið að njóta flests þess sem orðljótari hópar landsmanna hafa upp á að bjóða þegar þeir fá skapsmunum sínum útrás. Í þrjá áratugi hefur Hannes Hólmsteinn Gissurarson verið óþreytandi við að boða Íslendingum aukið frjálsræði; frjálst útvarp og sjónvarp, frjáls viðskipti, frjálsa gjaldeyrisnotkun, afnám hafta, lækkun skatta, niðurlagningu úreltra stofnana og einkavæðingu opinberra fyrirtækja. Og öll þessi ár hefur sami hópur vinstri manna gert hróp að honum fyrir. – Það eina sem hefur breyst í þeim efnum er að á síðari árum hafa börn þeirra bæst í hópinn, gjarnan með orðbragði sem ekkert gefur tungutaki foreldranna eftir.

Kannski yrði einhverjum þekkingarauki að því ef safnað yrði saman þeim grundvallarmálum sem helst hefur verið tekist á um í íslenskum stjórnmálum undanfarna áratugi og látið fylgja sögunni hver hefði barist fyrir hverju sjónarmiði. Kannski rynnu þá tvær grímur á ýmsa, að minnsta kosti það unga fólk sem eðli málsins samkvæmt hefur ekki haft tök á að fylgjast með stjórnmálabaráttunni nema um skamma stund. Kannski myndu sumir þá átta sig á því, hvílík regingjá er í raun á milli þeirra sem jafnan hafa verið frjálslyndir og þeirra sem hafa jafnt og þétt hopað úr einu víginu í annað, en iðulega með sjálfshól á vörum. Það eru þannig sömu vinstri mennirnir og reyndu að hindra frjálst útvarp og frjáls gjaldeyrisviðskipti sem stöðvuðu alla einkavæðingu svo lengi sem þeir höfðu tök á. Það er ekki alnafna heldur sú eina sanna Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem í borgarstjórn barðist gegn frjálsum afgreiðslutíma verslana og lagðist gegn einkavæðingu með þeim orðum að samkeppni væri „óþörf og almennt til leiðinda.“ Og í dag, þegar hún veit hvernig henni myndi vegna ef hún gengist við þessum skoðunum sínum, gengur hún á fund kjósenda og lætur eins og hún sé allt í einu orðinn nútímalegur og frjálslyndur umbótamaður! Og alltaf skulu einhverjir hlaupa pólitískan apríl.

Á sama tíma og íslenskir vinstrimenn hafa flestir verið á harðahlaupum undan fyrri skoðunum sínum og í örvæntingu reynt að koma sér upp nýjum fagurgala til að veifa framan í óráðna kjósendur, hefur annað verið uppi á teningnum hinum megin víglínunnar. Menn eins og Hannes Hólmsteinn Gissurarson geta óhræddir horfst í augu við þær skoðanir sem þeir hafa boðað af sannfæringu árum saman. En þó íslenskir vinstri menn vilji nú sjaldnast kannast við þær skoðanir sem þeir boðuðu hvað ákafast fyrir fáum misserum, þá er ein trú sem þeir munu aldrei ganga af. Þeir munu aldrei hætta að hatast við sinn gamla fjanda, dr. Hannes. Fyrir þeim verður hann alltaf táknmynd hins illa; þeir munu aldrei eiga nægileg orð til að lýsa andúð sinni á honum og munu því oftast verða að láta sér nægja orðaforða sem flestir aðrir venjast af upp úr fermingu.

Það eru ekki aðeins hefðbundin stjórnmálaátök sem hafa unnið Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni alla þessa óvild. Framganga hans í áranna rás hefur haft sitt að segja en Hannes hefur jafnan verið ófús að fara með löndum og hefur þannig fengið ýmsa upp á móti sér sem ella hefðu litið hann mildari augum. Sem lítið dæmi úr fortíðinni má nefna að á áttunda áratug síðustu aldar rak Hannes augun í að veruleg líkindi voru með efni tveggja bóka sem þá höfðu verið gefnar út um jafnaðarstefnuna. Önnur kom út árið 1977, nefndist Jafnaðarstefnan, og var eftir prófessor Gylfa Þ. Gíslason. Hin hafði komið út árið 1975, nefndist Equality and Efficiency, og var eftir bandaríska hagfræðinginn Arthur Okun. Nú hefðu flestir látið sér nægja að brosa breitt yfir þessari merkilegu tilviljun, hugsanlega nefna hana einhvern tíma yfir glasi í góðra vina hópi, en Hannes skrifaði hins vegar grein í Morgunblaðið þar sem hann vakti athygli á þessu. Ekki taldi Hannes hins vegar að Gylfi hefði stolið verki Okuns, heldur varpaði þeirri tilgátu fram að Okun hefði sótt sömu ráðstefnur og Gylfi og skrifað hjá sér það sem Gylfi hefði sagt. Stakk Hannes upp á því að Gylfi færi í mál við Okun fyrir ósvífnina. Ekki varð þó af þeim málaferlum því Morgunblaðið bar grein Hannesar undir Gylfa fyrir birtingu og kvað Gylfi þá að skýringin á tilviljuninni væri hversdagslegri; sér hefði einfaldlega láðst að birta heimildaskrá í bók sinni. Breytti Hannes þá grein sinni, en hann hafði sent hana inn undir titlinum Hugverki hnuplað af Gylfa Þ. Gíslasyni.

Fyrst getið hefur verið heiftar íslenskra vinstri manna í garð dr. Hannesar þá væri ósanngjarnt að geta ekki þess spekings sem einna lengst hefur borið Hannes í sinni, Svans Kristjánssonar prófessors, sem alþjóð er að góðu kunnur enda Ríkisútvarpið óþreytandi að leita álits þess hlutlausa fræðimanns á því sem hæst ber í stjórnmálum, einkum ef málið kann að snerta Sjálfstæðisflokkinn á einhvern hátt. Framganga Svans gagnvart Hannesi hefur verið með þeim hætti að fyrir nokkrum árum gáfu lögfræðingar Háskóla Íslands það skriflega álit sitt „að Svanur Kristjánsson [væri] vanhæfur til að fjalla um mál innan stjórnmálafræðinnar sem varða hagsmuni Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar.“ Nú heldur kannski einhver að álitið hafi verið „pantað“ – og þá er það að vissu leyti rétt. Hannes hafði á deildarfundum látið í ljós þá skoðun sína að vegna fjandskapar væri Svanur vanhæfur til að fjalla um sín mál og það varð til þess að Svanur sneri sér til Háskólarektors og óskaði úrskurðar um málefnið. Rektor leitaði til lögmannanna Gests Jónssonar og Harðar F. Harðarsonar, sem séð hafa um málarekstur fyrir Háskóla Íslands, og fékk umrædda álitsgerð.

Það er varla að Vefþjóðviljinn nenni að lesa þann póst sem honum mun berast það sem eftir lifir dags og næstu daga. Enginn sem talar máli Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar getur búist við tómum árnaðaróskum í framhaldinu. Heiftin og hatrið í íslenskum vinstrimönnum þegar prófessor þessi berst í tal eru slík að helst mætti vænta þeirra af ánamaðki þegar hann veit laxveiðimann nálgast. Munurinn er einkum sá að maðkurinn væri í fullum rétti. Íslenskir vinstri menn þola hvorki Hannes Hólmstein né það að nokkur virði hann og lífsstarf hans, og þeir sem brjóta gegn því banni, vei þeim!

Þó reyna vinstri menn sjálfir oft að nýta sér Hannes og þá mynd sem þeir hafa dregið upp af honum í þrjátíuárastríði þeirra. Þannig er algengt að vinstri maður sem kemst í þrot í umræðum, grípi til þrautaráðsins: að byrja að formæla Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni. Þegar Stefán Jón Hafstein var síðastliðið vor að sannfæra borgarbúa um að borgarstjórnarkosningarnar væru í raun kosning um borgarstjóra þá sagði hann ekki að fólk skyldi velja á milli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Björns Bjarnasonar, sem hefði þó að vissu leyti verið rökrétt, svona af því að þá lét Ingibjörg Sólrún eins og hún væri í raunverulegu framboði. Nei nei, þessi venjulega vinstri heift braust út: „Borgarbúar geta valið um að veita farsælum borgarstjóra brautargengi til endurkjörs en hinn kosturinn er aðstoðarborgarstjórinn Hannes Hólmsteinn Gissurarson sem er potturinn og pannan í öllu því sem hefur verið gert í Valhöll að undanförnu“ sagði Stefán Jón Hafstein í viðtali við Ríkisútvarpið sem að sjálfsögðu spurði hann ekki um það hvað hann hefði fyrir sér í þessari furðulegu, en dæmigerðu, fullyrðingu. Annað gagn sem vinstri menn, það er að segja vinstri sinnaðir fjölmiðlamenn, hafa af Hannesi, er að þeir nota hann oft til að ljá þáttum sínum hlutleysisblæ. Þannig hafa þeir árum saman haft þann sið að fylla þætti sína af skoðanabræðrum sínum og -systrum sem láta gamminn geysa sem hlutlausir fræðimenn. Svo er rætt við Hannes Hólmstein Gissurarson og þegar borgaralega sinnað fólk kvartar yfir vinstri slagsíðu þáttarins rekur stjórnandinn upp stór augu: „Ha? Var Hannes ekki þarna?“

Eins og áður sagði hefur Hannes Hólmsteinn meðal annars skapað sér óvild með því að þegja ekki endilega yfir því sem hann veit ámælisvert í framgöngu annarra. Þegar margir myndu hafa þann hátt á að láta kyrrt liggja, annað hvort til þess að halda einhvern frið eða þá í orðalausu samkomulagi um að hver þegi um annars afglöp, er allt eins víst að Hannes skrifi grein og reki málið. Auðvitað er ekki nema mannlegt að þeir sem þannig eru sýndir í skoplegu ljósi kunni prófessornum litlar þakkir fyrir og hefur Hannes lengi mátt reyna það. En íslenskir vinstri menn hafa aðrar og pólitískari ástæður til að vera Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni gramir. Það er ósennilegt að nokkur maður hafi haft eins mikil áhrif á stjórnmálaumræðu og þróun íslenskra þjóðmála undanfarna áratugi, án þess að vera nokkru sinni kjörinn til pólitísks embættis. Hvort sem menn vilja viðurkenna að það hafi að einhverju leyti verið fyrir áhrif þessa umdeilda prófessors eða ekki, þá hefur þjóðmálaumræðan færst mikið til á þessum árum. Ótalmargt það, sem mörgum þóttu órar manns sem hefði lesið yfir sig af erlendum kreddum, nýtur nú slíkrar viðurkenningar að stjórnmálamenn velflestra flokka keppast við að halda því að borgurunum að það bæði sé og hafi alltaf verið lykilatriði í stefnu þeirra sjálfra.

Auðvitað hafa fleiri menn en margumræddur Hannes átt þátt í þessum viðhorfabreytingum. En þáttur hans er svo fyrirferðarmikill að það þarf einstaka ofstækismenn til að horfa fram hjá honum. Í þrjátíu ár hefur Hannes frumsamið, þýtt og gefið út bækur, ritstýrt tímaritum, haldið fundi, fengið til Íslands fjölda erlenda fyrirlesara – þar á meðal þrjá Nóbelsverðlaunahafa – skrifað næstum endalausar blaða- og tímaritsgreinar og hlíft sér hvergi. Hann hefur tekið á sig ómælt hatur og fyrirlitningu vinstri manna – og af og til annarra sem nær honum hefðu þó átt að standa – til að vinna sínum frjálslyndu hugsjónum fylgi. Hannes Hólmsteinn Gissurarson er ekki gallalaus maður og ekki óskeikull, en því hafa hvorki hann né aðrir haldið fram. Hann hefur hins vegar lagt svo mikið af mörkum í þágu þess málstaðar sem öllum málstað er líklegri til að bæta hag og rétt hins almenna borgara, að mörgum má vera óhætt að sjá af nokkrum þakklætisorðum til hans, þó ekki væri nema einu sinni. Vefþjóðviljinn veit vel að með orðum sínum í dag kallar hann yfir sig stóryrðaflaum þeirra sem sérhæfa sig í slíkum viðbrögðum, en það er gjald sem blaðið er fúst að greiða. Á fimmtugsafmæli Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar hugsar frjálslynt fólk til síns ötulasta baráttumanns og þakkar fyrir sig.