Borgarbúar geta valið um að veita farsælum borgarstjóra brautargengi til endurkjörs en hinn kosturinn er aðstoðarborgarstjórinn Hannes Hólmsteinn Gissurarson sem er potturinn og pannan í öllu því sem hefur verið gert í Valhöll að undanförnu. |
– Stefán Jón Hafstein, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins 25. apríl 2002. |
Þeir tóku hann á orðinu, borgarbúar. Og ekki bara hann, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fór í viðtal eftir viðtal og á fund eftir fund og allaf voru fullyrðingarnar á sama veg. ‘Kjósiði R-listann og þá verð ég borgarstjóri, nema þá að ég hrökkvi upp af. Ef þið viljið óbreyttan borgarstjóra, þá verðiði að kjósa R-listann. Ég ætla að einbeita mér að borgarmálunum næstu fjögur árin, ég veit að ég er vinsælli en R-listinn eða Alfreð Þorsteinsson, en þið getið óhrædd kosið R-listann því þá eruði að kjósa mig en ekki þá. Ég svík ekki, ég er sú trúverðuga Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, dömur mínar og herrar.’
Og borgarbúar – það er að segja, naumur meirihluti þeirra sem kusu, gengu til þessara samninga, endurkusu R-listann og borgarstjórann sem ætlaði að sitja kyrr nema hún hrykki upp af. Og í dag tók Þórólfur Árnason, fyrrverandi forstjóri símafyrirtækisins Tals, við embætti borgarstjóra í Reykjavík en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er farin í annað framboð og liggur nú með rýnihópum inni á auglýsingastofu og hannar ný loforð fyrir sig og Stefán Jón að gefa.
Ekki er nóg með að Ingibjörg hafi snúið baki við skýrum fyrirheitum sínum, hún reynir meira að segja að kenna svo kölluðum samstarfsmönnum sínum um brotthvarf sitt. Og það er meira að segja til fólk sem lætur eins og það trúir þeirri yfirmáta vitlausu kenningu. Kenningu sem virðist gera ráð fyrir því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sé ein manna algerlega óbundin af þeim skuldbindingum sem hún gefur. Að allt sem hún gerir sé bara í lagi samkvæmt skilgreiningu. Að hún geti í senn verið sameiningartákn kjósenda þriggja ólíkra stjórnmálaflokka og frambjóðandi eins þeirra í harðvítugri baráttu gegn hinum. Að hún geti bara lofað lofað og lofað að fara ekki í tiltekið framboð, en geti svo bara nokkrum vikum síðar ákveðið að fara bara í þetta nákvæmlega sama framboð og það sé bara allt í lagi. Að hún geti bara komið með furðufrasa um að hún „geti ekki látið neita sér um þau sjálfsögðu mannréttindi að taka sæti á lista“ – og svokallaðir fréttamenn landsins senda það út án þess að spyrja einu sinni hvort það hafi ekki verið hún sjálf sem margsinnis lofaði þessum réttindum frá sér?
Að vissu leyti er skiljanlegt að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sé óhrædd við að hverfa nú frá skýrum og auðskildum orðum sínum og ráða bara Þórólf í sinn stað. Auðvitað sér hún að það er allur gangur á því hversu vel reykvískir kjósendur taka á sviknum loforðum. Það er þessi sama Ingibjörg Sólrún sem veit manna best að R-listinn hefur lofað að „lækka gjöld á Reykvíkinga“ en hins vegar efnt það loforð með skattahækkunum. Það er þessi sama Ingibjörg Sólrún sem veit manna best að til dæmis í dagvistarmálum hefur hún ítrekað lofað að „eyða biðlistunum“, en eftir tæplega átta ára stjórn hennar voru tæplega tvöþúsund reykvísk börn á þessum biðlistum sem alltaf hefur verið lofað að eyða. Og þannig mætti áfram telja. Þrátt fyrir að hafa svikið fjölmörg af sínum helstu loforðum þá hefur R-listinn verið endurkosinn til valda og þá er kannski ekki nema mannlegt að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir telji fullvíst að hún geti jafnvel líka komist upp með að svíkja það loforð sitt að hlaupa ekki út í næstu alþingiskosningar. Og svo leiðinlegt sem það er, þá mun ýmsu mætu fólki enn verða ofviða að sjá það sem þó ætti að blasa við hverjum heilbrigðum manni. Og þó, getur það verið til lengdar? Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur á undanförnum vikum fellt gengi sitt svo stórkostlega að enginn skyldi treysta því að fólk láti fara þannig með sig til lengdar. Það þarf hörðustu össura til að horfa í augun á kjósendum og fullyrða að svart sé hvítt, kalt sé heitt og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi í fyrra boðið sig fram til eins árs en ekki fjögurra.