Föstudagur 31. janúar 2003

31. tbl. 7. árg.
„Þetta er engin hemja með launin hjá þessum Eiði Smára!“
„Segðu. Og svo tapar hann þessu öllu bara í svartapétri.“
   – Dæmigerðar samræður um launamál

Öðru hverju fullyrða erlend slúðurblöð að hinn eða þessi kvikmyndaleikari fái greidda svo og svo marga milljarða króna fyrir að leika í nýrri mynd. Og þó þessar upplýsingar séu sjaldan hafðar eftir neinum sem veit neitt um málið þarf enginn að velkjast í vafa um að skærustu stjörnur kvikmyndaheimsins fá fyrir hverja mynd hærri þóknun en venjulegur maður vinnur sér inn á heilli ævi. Þannig var á dögunum fullyrt að hinn ágæti leikari, Bruce Willis, fái sennilega greitt nokkuð á þriðja milljarð króna fyrir að fara einu sinni enn með hlutverk lögreglumannsins Johns McClanes, og væru eflaust ýmsir til að taka það að sér fyrir minna fé. Svipaða sögu má segja um þá sem fremstir standa í mörgum öðrum greinum og fyrst hér að ofan var logið upp samræðum um þann ágæta knattspyrnumann, Eið Smára Guðjohnsen, þá má nefna að hann og starfsfélagar hans fá sennilega flestir hærri laun á einni viku en venjulegir launamenn á heilu ári.

Mörgum finnst þetta hrein sturlun. Og auðvitað er dálítið til í því; tveggja milljarða króna launaávísun fyrir nokkurra vikna starf er náttúrlega nokkuð undarleg hugmynd, að minnsta kosti fyrir venjulegt fólk. Milljónir króna á hverri viku fyrir það eitt að sparka bolta – ef launþeginn kemst þá í liðið – hljómar einnig furðulega ef út í það er farið. En það er nú einmitt það, á eitthvað að vera að fara út í það? Er brotinn réttur á nokkrum manni þó einhverjir aðrir fái þessar gríðarlegu tekjur? Fólki úti í bæ kemur það einfaldlega ekkert við hvaða laun annað fólk ber úr býtum og breytir engu þó til dæmis megi færa rök að því að gríðarleg laun kvikmyndaleikarans hækki það verð sem áhorfandinn þarf síðar að borga inn á myndina. Og því hærri laun sem þær fá, knattspyrnustjörnur eins og Eiður Smári, Pat Jennings og Lee Dixon svo nokkrar séu nefndar, þeim mun meira verða félögin að setja upp fyrir sýningarrétt af leikjunum og það hækkar svo áskriftarverð til áhorfandans, – en hverjum dettur í hug að það orsakasamband veiti einhverjum „almenningi“ rétt til að kynna sér launakjör þessara leikmanna?

Auðvitað dettur engum það í hug. Auðvitað verða ekki umræður á bandaríska þinginu um laun Bruce Willis. Það verða ekki utandagskrárumræður í neðri málstofu breska þingsins þar sem sótrauðir þingmenn krefjast þess að fá að sjá launaseðla Eiðs Smára. En á Íslandi hins vegar, þar er nú annað uppi á teningnum. Á dögunum hélt Ríkisútvarpið því fram að tryggingafélag eitt hefði samið við forstjóra sinn um að hann léti af störfum gegn greiðslu þóknunar sem meta mætti á um tvö hundruð milljónir króna. Forstjórinn mótmælti þessari tölu sem rangri en hvað um það, þessi frétt hefur orðið tilefni sérstakra utandagskrárumræðna á Alþingi Íslendinga. Rétt eins og hugsanlegir samningar fyrirtækisins og þessa manns komi löggjafarþinginu við.

Nú er enginn kominn til með að segja að samningur eins og þarna er sagður hafa verið gerður sé í öllum tilfellum einkamál forstjórans og stjórnarinnar sem samið hefur við hann. Þar koma nefnilega til álita aðrir aðilar, hluthafar fyrirtækisins, sem eiga heimtingu á því að stjórnendur þess skari ekki um of eld að eigin köku, svo sem með næstum endalausum launagreiðslum, sífelldum bónusum, geysilegum eftirlaunasamningum eða með því að láta fyrirtækið greiða persónuleg útgjöld sín, langt umfram það sem getur samrýmst stöðu þeirra. En þetta eru mál hluthafa en ekki alþingis. Hugsanlegir eftirlaunasamningar forstjóra einkafyrirtækja eiga ekki nema mjög takmarkað erindi inn í sali alþingis; að minnsta kosti er óviðkunnanlegt að hlusta á stóryrðaflaum þingmanna sem einkum virðast hafa áhuga á að æsa fólk upp, svona fyrst nú styttist í kosningar. Hitt er svo annað mál hvaða reglur til dæmis kauphöll setur um upplýsingaskyldu skráðs fyrirtækis og hvað er gert til að vernda hinn almenna hluthafa fyrir ágangi stórs hluthafa eða stjórnanda fyrirtækisins. Hlutabréfamarkaður er mikilvægur fyrir vöxt og viðgang efnahagslífsins og það er mikilvægt fyrir hlutabréfamarkað að hinn almenni hluthafi þurfi ekki að óttast að hinir stærri misnoti aðstöðu sína til að auðgast á kostnað fyrirtækisins. En það kallar ekki á múgæsingarleg stóryrði alþingismanna í atkvæðaleit.