Ígær var skuldaþróun Reykjavíkurborgar kynnt fyrir borgarbúum. Kynningin kom í hlut minnihluta borgarstjórnar, enda hefur meirihluti R-listans ekki nema hóflegan áhuga á að ræða skuldir borgarinnar og þá sjaldan hann gerir það er það til að snúa út úr, blekkja og benda eitthvað annað. En staðreyndirnar liggja sem sagt fyrir, skuldir borgarinnar munu nema litlum 83,5 milljörðum króna í lok þessa árs og hafa þá vaxið um 50 milljarða króna frá því núverandi meirihluti tók við. Í tíð R-listans hafa skuldirnar vaxið um tvær milljónir króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu í borginni. Það er sannarlega einstakt.
Vill skyldusparnað á almenning en safnar sjálf skuldum í nafni hans. |
R-listinn fór fram með það loforð þegar hann komst til valda árið 1994 að lækka skuldir borgarinnar, en þess í stað hefur hann stórlega aukið þær auk þess sem hann hefur hækkað skatta umtalsvert. R-listinn hefur skýlt sér á bak við miklar framkvæmdir Orkuveitunnar á Nesjavöllum, en um það má segja þrennt: Miklar framkvæmdir í orkumálum höfðu átt sér stað löngu áður en R-listinn komst til valda, nágrannasveitarfélög með mun lægri skuldir hafa staðið í sambærilegum framkvæmdum og síðast en ekki síst þá skýrist skuldaaukningin ekki nema að einum fimmta hluta af þessum framkvæmdum. Hinir 40 milljarðarnir og skattahækkanirnar hafa farið í óútskýrða sóun á almannafé.
Fremst í flokki þeirra sem bruðlað hafa með skattfé Reykvíkinga er Ingibjörg Pandóra Gísladóttir sem nú hefur gefið kost á sér til Alþingis og vill taka að sér forsætisráðuneytið og þar með stýra efnahagsmálum þjóðarinnar allrar. Yrði henni að ósk sinni fengju Íslendingar allir að kynnast þeim aðferðum sem beitt hefur verið við stjórn borgarinnar og þá er óhætt að fullyrða að snúið yrði af þeirri braut sem ríkissjóður hefur verið á, en á sama tíma og Ingibjörg hefur safnað skuldum hefur ríkissjóður greitt skuldir sínar niður um 13%.
Ýmsum hefur þótt sem fjármálaráðherra hefði að ósekju mátt halda fastar um budduna og spara skattfé. Þeim sem eru þeirrar skoðunar hlýtur þó að hrjósa hugur við þátttöku Ingibjargar í landsstjórninni, því sparnaður er greinilega nokkuð sem henni er víðs fjarri.
Á því er þó ein undantekning, en hún snertir reyndar sparnað annarra. Ingibjörg sat á þingi fyrir áratug þegar ríkisstjórnin vildi leggja af skyldusparnað ungs fólks. Þá var viðhorf hennar til sparnaðar að neyða skyldi fólk til að spara sitt eigið fé. Þegar hún fer með fjármuni þessa sama fólks þarf hins vegar ekki að spara, þá má eyða þessum fjármunum út og suður – og það jafnvel áður en þeirra er aflað.