Þá er það útnorðrið. Það þarf sinn skammt. Það er að segja af því fé sem tekið er af hinum almenna manni að honum forspurðum í skatt. Já tekjuskatt, sérstakan tekjuskatt, útsvar, holræsagjald, fasteignagjald, eignaskatt, fjármagnstekjuskatt, tryggingagjald, iðnaðarmálagjald, markaðsgjald, virðisaukaskatt, áfengisgjald, úrvinnslugjald, toll, vörugjald, afnotagjald, bifreiðagjald og svo framvegis. Þegar allt um þrýtur og örendið þar með tekur svo auðvitað erfðafjárskatturinn við.
Sjálfsagt er ekki gott að velta því of lengi fyrir sér hvernig stendur á því að við sitjum uppi með alla þessa skatta og fleiri til. Það er hætt við að þeir sem hugsa of lengi um þetta yrðu heldur leiðir á lífinu en erfðafjárskatturinn varnar mönnum vissulega útleiðar. Ein ástæðan er vafalítið að góðgjarnir menn, ekki síst þingmenn, eru sífellt að koma auga á verkefni sem engin er að sinna og þá er eins og þeir dragi aðeins eina ályktun af því. Aha, látum ríkið sinna því og neyðum skattgreiðendur til að greiða fyrir það. Svo láta þeir kanna málið á kostnað skattgreiðenda, gera fyrirspurnir, leggja fram þingsályktanir, heimta skýrslur og hvað þau heita nú öll þessi ráð sem þeir hafa til þoka málum í þann farveg að á endanum situr hinn almenni maður eftir með sárt ennið og færri krónur í launaumslaginu.
Nú hefur spurst út, án efa með aðstoð fyrirspyrjandans, að Steingrímur J. Sigfússon hefur gert fyrirspurn til Norrænu ráðherranefndarinnar um flugleið í útnorðri. „Eru einhverjar aðgerðir í gangi af hálfu norrænu ráðherranefndarinnar sem miða að því að styrkja opnun flugleiðar í útnorðri á milli Færeyja, Íslands og Grænlands? Hefur Norræna ráðherranefndin áformað eða gert sér hugmyndir um aðgerðir sem geta stutt áform um að koma á slíkri flugleið?“, spyr Steingrímur.
Svona byrjar þetta oftar en ekki. Og fyrr en varir greiða allir fyrir flugferð í útnorður og hagsmunir skattgreiðenda fara norður og niður.