Þriðjudagur 28. janúar 2003

28. tbl. 7. árg.

Æer nema von þó fólki ofbjóði? Slík er sýndarmennskan í Samfylkingunni að jafnvel margt af hennar eigin fólki stendur gapandi. Það er einfaldlega hvað sem er gert, ef einhverjum ímyndarofstopamanninum í forystunni dettur í hug að það geti orðið fjölmiðlamál, vakið athygli og jafnvel aukið fylgið í næstu skoðanakönnun. Allir muna farsann í kringum skyndilegt framboð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þvert á marggefin loforð, og framhaldsleikritið sem verið hefur látlaust á fjölunum síðan, við óþrjótandi áhuga fjölmiðlamanna sem hafa jafnan látið eins og þeir trúi hinni hönnuðu atburðarás. Og svo bættist við næsta „móment“; óvirkur síframbjóðandi úr öðrum flokki fundinn og formálalaust settur á lista og það í sæti sem annar maður, og meira að segja Samfylkingarmaður, hafði þegið. Nýi frambjóðandinn, hann sér ekki einu sinni ástæðu til að segja sig úr sínum fyrri flokki og gefur kinnroðalaust þá skýringu að kannski opnist framboðsmöguleikar þar síðar og þá sé hentugt að vera í flokknum. Og þetta lætur Samfylkingin sér vel líka. Þetta kemst í fréttir; athygli, athygli. Það er hreinlega eins og forysta Samfylkingarinnar átti sig ekki á því að allt segir þetta jafnvel meira um hana en þennan undarlega frambjóðanda.

Kolbrún Bergþórsdóttir, sem lengi hefur verið einn ötlulasti stuðningsmaður Samfylkingarinnar og þar áður Alþýðuflokksins í Reykjavík, skrifaði grein um þetta mál í DV í gær og hefur skiljanlega fengið nóg af framgöngu forystumanna sinna. „Hlægilegt og til lítils sóma“ segir Kolbrún um það sem Samfylkingin býður landsmönnum, og þá ekki síst eigin fólki upp á. „Er Samfylkingin að hæðast að flokksfólki? Allavega er hún að gera ansi lítið úr öðrum frambjóðendum flokksins og hefur svikið loforð við þá. Eru nú ekki einhver takmörk fyrir lágkúrunni eða vilja menn gera hvað sem er til að ná í atkvæði?“

Þessar spurningar Samfylkingarkonunnar þurfa ekki að koma á óvart. Og það sem meira er, svörin blasa við. Að minnsta kosti blasa þau við öllum þeim sem ekki eru staðráðnir í því að átta sig ekki á því hvað um er að vera. Samfylkingin er kannski ekki beinlínis að hæðast að flokksfólki, hins vegar er ákveðinni forystukonu Samfylkingarinnar og nánustu stuðningsmönnum hennar nákvæmlega sama hvað flokksfólki finnst. Þau eru sannfærð um að flokksfólk láti bjóða sér hvað sem er og forystukonan komist upp með hvað sem henni hentar. Forystukonan geti óhikað svikið hvert það loforð sem henni henti að gleyma, hún geti orðið leiðtogi án leiðtogakjörs og frambjóðandi án prófkjörs. Hún veit hvar hún hefur fjölmiðlafólkið og þá telur hún sig engar áhyggjur þurfa að hafa af flokksmönnum, þeir muni gera það sem þeim er sagt.

Og hinar spurningarnar sem Kolbrún Bergþórsdóttir ber fram um Samfylkinguna: „Eru nú ekki einhver takmörk fyrir lágkúrunni?“ og „vilja menn gera hvað sem er til að ná í atkvæði?“ – svörin við þeim blasa líka við. En hér er ekki eingöngu við umrædda forystukonu að sakast. Ef nægilega margir kjósendur yppta bara öxlum þá mun hún halda áfram á þessari braut. Ef nægilega margir eru nógu harðsvíraðir til að samþykkja framgöngu hennar, hvort sem er með þögn eða uppgerðarhrósi, þá mun fólk þurfa að horfa upp á meira af svo góðu. Því núverandi forysta Samfylkingarinnar MUN gera hvað sem er „til að ná í atkvæði“.