Þ
„Já ég fullyrði algerlega að ég er ekki að fara í þingframboð að ári. Það er alveg ljóst.“ – Ingibjörg Sólrún í RÚV á kosninganótt síðasta vor. |
órólfur Árnason verður að öllum líkindum næsti borgarstjóri í Reykjavík eftir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ákvað að svíkja gefin loforð um að fara ekki í þingframboð í vor og að vera borgarstjóri út kjörtímabilið.
Þegar Ingibjörg hafði ákveðið að svíkja loforðið um að bjóða sig ekki fram til þings í vor sagði hún að hún hefði fyrst og fremst trúnaðarskyldur við kjósendur um að vera áfram borgarstjóri. Nokkrum dögum síðar rauf hún að eigin tillögu þann trúnað einnig.
Ýmsir samherjar Ingibjargar hafa síðustu daga reynt að gera úr henni fórnarlamb sem Alfreð Þorsteinsson og Árni Þór Sigurðsson hafi leitt til slátrunar. Þó var það Ingibjörg sjálf sem ákvað að svíkja loforð um að fara ekki í þingframboð. Alfreð og Árni Þór gáfu henni þá tvo kosti. Annað hvort hætti hún við að svíkja loforðið um að fara ekki í þingframboð eða hún hætti sem borgarstjóri. Ingibjörg tók þann kost að hætta sem borgarstjóri og svíkja þar með annað loforð sem hún hafði gefið fyrir kosningar, ítrekað eftir kosningar og hnykkt á dagana eftir að hún tilkynnti þingframboð sitt.
Þórólfur Árnason hefur sagt svo frá að hann hafi um dagana kosið alla flokka. Gefum okkur nú að hann ákveði eftir að hann verður ráðinn sem borgarstjóri að fara í framboð til þings fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ætli borgarfulltrúar VG, Framsóknar og síðast enn ekki síst Samfylkingar tækju því þegjandi og hljóðalaust? Kannski Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi hefði skilning á því eftir að hún lýsti því yfir að hún ætlaði sér í þingframboð fyrir Samfylkinguna en ekki á móti öðrum flokkum! Kannski færi Þórólfur bara í framboð með Sjálfstæðisflokknum en ekki á móti öðrum flokkum og borgarfulltrúar Samfylkingarinnar myndu skríkja af ánægju yfir því að hann ætlaði bara að bjóða sig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn en auðvitað ekki gegn Samfylkingunni. Eða hvað?