Föstudagur 3. janúar 2003

3. tbl. 7. árg.

Fyrir síðustu þingkosningar leiddi Jóhanna Sigurðardóttir lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Rétt eins og hún mun gera fyrir kosningarnar í vor. Þá lýsti hún því yfir að „sjálf sé hún fjármálaráðherraefni Samfylkingarinnar“. Eftir glæsilega útkomu í annars bragðdaufu prófkjöri Samfylkingarinnar í haust er engin ástæða til að ætla að Jóhanna hafi slegið af kröfum sínum um ráðherrastól. Önnur augljós ráðherraefni Samfylkingarinnar í vor eru Össur Skarphéðinsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Margrét Frímannsdóttir. Samtals hafa þau setið yfir 60 ár á þingi og hljóta því að teljast afar ferskur hópur sem mun án efa fara fram undir málefnalegu og innihaldsríku kjörorðunum „tími til að breyta“.

Þótt Jóhanna girnist fjármálaráðherrastóllinn fremur en forsætisráðuneytið er ekki þar með sagt að Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar verði forsætisráðherra. Það er orðið fernt óteljandi í íslenskum stjórnmálum; úrsagnir og inngöngur Ágústar Einarssonar í Alþýðuflokkinn, flokkarnir sem Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur starfað í, flokkarnir sem Þórólfur Árnason hefur kosið og hringferðir Össurar Skarphéðinssonar í einföldum málum. Í vor var Össur bara nokkuð rogginn sem formaður Samfylkingarinnar og ekkert að vanbúnaði, að eigin mati, að taka við forystu í ríkisstjórn. Í haust taldi Össur það vel koma til greina að Ingibjörg yrði forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Gott ef það var ekki bara hans eigin tillaga. Eftir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ákvað að fara algerlega í þingframboð fremur en gera það „algerlega“ ekki tók Össur enn einn snúning og á einum og sama deginum útilokaði hann Ingibjörgu frá forsætisráðherrastólnum og mátaði hana í hann nokkrum stundum síðar.