Miðvikudagur 1. janúar 2003

1. tbl. 7. árg.

Formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson, ritaði venju samkvæmt grein í miðopnu Morgunblaðsins í gær og fjallaði þar um helstu atburði stjórnmálanna á nýliðnu ári og sum þeirra verkefna sem framundan eru. Það sem ef til vill er athyglisverðast er umfjöllun hans um breytt hlutverk ríkisins frá því sem áður var. Davíð nefndi þetta í tengslum við það hve vel hefði tekist til í efnahagsmálum á árinu betur en sérfræðingar hafi spáð og benti á að áður hafi ríkið jafnan farið með aðalhlutverkið og haft afgerandi áhrif á efnahagslífið. Þegar ríkið hafi misstigið sig hafi allt afarið úr skorðum. Nú séu leikendur mun fleiri og ríkið hafi „nú aðeins miðlungsrullu“. Það viðhorf til þátttöku ríkisins sem fram kemur í þessum orðum er fagnaðarefni, því mikilvægt er að áhrifamenn í stjórnmálum geri sér grein fyrir að vel fer á því að þeir dragi úr áhrifum sínum. Þetta skilja því miður ekki allir og sýna iðulega ríkan vilja til að auka áhrif sín og afskipti. Það má einnig segja að táknrænt sé fyrir þetta viðhorf til ríkisins að í gær seldi það nær allan hlut sinn í Landsbanka Íslands, 46%, og hefur þar með lokið einkavæðingu bankans og komið honum í hendur einkaaðila.

Það skiptir einnig máli fyrir umgjörð efnahagslífsins að skattar á fyrirtæki í landinu hafa verið lækkaðir rækilega. Í áramótagrein formanns Sjálfstæðisflokksins minnist hann á þetta og bendir á að þeir sem haldi því fram að skattalækkanir til fyrirtækja séu gerðar á kostnað einstaklinganna séu fullkomnir ratar þegar komi að gangverki atvinnulífsins. Þetta er vegna þess að skattar á fyrirtæki hafa einnig áhrif á lífskjör einstaklinga. Þetta breytir því ekki að frjálslyndir menn vilja sjá frekari lækkun tekjuskattshlutfalls einstaklinga en náðst hefur á síðustu árum og þess vegna skiptir máli að í greininni minnist Davíð einnig á að full ástæða sé til að halda áfram að lækka skatta á einstaklinga og að efni ættu að verða til þess á næsta kjörtímabili. Þetta hlýtur þó meðal annars að byggjast á því að þeir sem stolið hafa skattalækkunum ríkisins með hækkun útsvars, þ.e. R-listaflokkarnir með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í broddi fylkingar, verði ekki of áhrifamiklir.

Í gamlársdagsblaði Morgunblaðsins eru leiðtogar annarra stjórnmálaflokka einnig inntir álits á málefnum líðandi stundar. Ummæli þeirra eru að þessu sinni ekki sérlega krassandi og þar er því miður fátt sérlega eftirtektarvert, sem er nokkuð á skjön við þau orð Össurar Skarphéðinssonar formanns Samfylkingarinnar í sjónvarpsumræðum í gær að kosningabaráttan í vor yrði sú magnaðasta síðan land byggðist. Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins er sáttur við árangur ríkisstjórnarinnar og nefnir meðal annars í því sambandi að stefnt sé að sölu ríkisbankanna fyrir kosningar og að ef allt gangi eftir muni verða af sölunni. Halldór hefur þegar reynst sannspár hvað Landsbankann snertir og mun vonandi ekki reynast síðri spámaður þegar kemur að því að ljúka sölu Búnaðarbankans. Sverrir Hermannsson er víst líka formaður stjórnmálaflokks og fær því að fljóta með í Morgunblaðinu – og í þessum línum. Samkvæmt ummælum Sverris í sjónvarpi í gær mun flokkur hans, Frjálslyndi flokkurinn, koma á óvart í kosningunum næsta vor og ná inn nokkrum mönnum. Ekki er svo sem hægt að útiloka með öllu að það gangi eftir, en þá er þó hætt við að Sverrir og félagar verði að setja nýja plötu á fóninn.

Össur Skarphéðinsson er einnig formaður stjórnmálaflokks; að minnsta kosti þar til Ingibjörg Sólrún ákveður að stíga endanlega á hann. Hann hefur meira að segja nýlega sagst vilja vera formaður áfram, en það kann þó hæglega að hafa breyst, því Össur er sá maður í íslenskum stjórnmálum sem skiptir hraðast um skoðun. Hann hefur til að mynda á örfáum dögum farið í hringi varðandi spurninguna um það hvort til greina komi að Ingibjörg Sólrún verði forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Hann taldi fyrst að það kæmi til greina, hún gæti verið forsætisráðherra og hann formaður flokksins. Svo var þetta alveg aftekið í útvarpi í fyrradag og Ingibjörg Sólrún gat alls ekki verið forsætisráðherraefni flokksins að mati Össurar. Í sjónvarpsumræðum í gær varð Ingibjörg Sólrún svo aftur hugsanlegt forsætisráðherraefni flokksins ef marka má þennan sama Össur. Það má því til sanns vegar færa að hlutirnir gerast hratt í íslenskum stjórnmálum, að minnsta kosti þegar Össur og svilkona hans eiga hlut að máli. Össur má þó eiga það að þegar hann skiptir um skoðun er það ekki endilega neitt meira en það; hann er bara óákveðinn og veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga. Svilkonan Ingibjörg Sólrún er hins vegar þeirrar náttúru að hún gefur loforð, skiptir svo um skoðun og hugleiðir að svíkja loforðið, afræður því næst að svíkja það ekki því hún sé skuldbundin kjósendum, en vill svo ekki halda sig við það, skiptir enn um skoðun og svíkur loforðið þrátt fyrir allt. Þetta er öllu lakara skapgerðareinkenni en vindhanaháttur Össurar.

Ef marka má Össur, en á því er rétt að hafa eðlilegan fyrirvara eins og að framan er rakið, er ljóst af því sem hann segir í Morgunblaðinu í gær að ekki er mikill ágreiningur á milli hans og ríkisstjórnarinnar. Hann gerir ekki ágreining um neitt og fagnar árangri í efnahagsmálum. Eina atriðið sem greinir hann frá stefnu ríkisstjórnarinnar er aðild að Evrópusambandinu. Jú, svo hefði hann viljað sjá skattalækkun á einstaklinga á kjörtímabilinu, segir hann. Hvort þetta á að vera lúmskt skot á Ingibjörgu Sólrúnu fyrir að hafa stolið hluta af skattalækkun ríkisstjórnarinnar skal ósagt látið. En að ætla að bjóða núverandi borgarstjóra fram sem einn helsta forystumann og ráðherraefni Samfylkingarinnar og segjast um leið vilja lækka skatta hljómar sem ótrúleg ósvífni gagnvart kjósendum.

Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstrihreyfingarinnargræns framboðs er við sama heygarðshornið og áður og notalegt að vita af honum þar. Hann vill „velferðarstjórn“ því velferðarkerfið hafi veikst eftir bráðum tólf ára stjórnarforystu Sjálfstæðisflokksins. Öll þessi ár hafa útgjöld ríkisins til velferðarmála að vísu vaxið hröðum skrefum, en útgjöld ríkisins til velferðarmála er yfirleitt mælikvarði vinstri manna á velferð almennings. Þetta skiptir Steingrím þó litlu og hann kýs að rökstyðja skoðun sína ekkert svo engin leið er að vita hvað Steingrímur á við. Varla á hann þó við að velferðarstjórnin eigi að snúa af þeirri braut að eyða sífellt meira skattfé í hin svokölluðu velferðarmál. Það væri þó út af fyrir sig jákvætt, því velferð mun ekki aukast með aukinni eyðslu heldur miklu frekar ef fjármunirnir eru betur nýttir með því að hleypa einkaaðilum í auknum mæli að í heilbrigðis- og menntamálum. Þetta má Steingrímur þó ekki heyra á minnst, en í þessu sambandi má minna á það sem Davíð Oddsson segir í fyrrnefndri áramótagrein, að þeir sem ekki vilji fallast á að nauðsynlegt sé að tryggja öfluga þjónustu með sem hagkvæmustum hætti séu hinir eiginlegu andstæðingar íslenska velferðarkerfisins.