Þriðjudagur 31. desember 2002

365. tbl. 6. árg.

ÁRAMÓTAÚTGÁFA

Eins og jafnan á þessum árstíma hefur Vefþjóðviljinn safnað saman þeim atriðum líðandi árs sem síst skyldu hverfa með því inn í aldanna skaut.

Menntastofnun ársins: Í stjórnmálaskóla Framsóknarflokksins var boðið upp á bæði skólasetningu og skólaslit, en að vísu ekki meira, enda óþarfi að ofgera nemendum.

Kynslóðaskipti ársins: Eftir að sitjandi þingmenn höfðu orðið efstir í öllum prófkjörum Samfylkingarinnar og nýliðar staðið þeim langt að baki, lýsti Össur Skarphéðinsson niðurstöðunum sem „kynslóðaskiptum“.

Hirðir ársins: Pétur Blöndal bauðst til að hlaupa undir bagga þegar hann fann í Sparisjóði Reykjavíkur fé án stofnfjárhirðis.

Ótvíræðastur á árinu: Sturla Böðvarsson, sigurvegari.

Þóknun ársins: R-listinn auglýsti að hann hefði hefði lækkað holræsagjöldin „nú þegar meira en sjálfstæðismenn lofa“ og þar sem sjálfstæðismenn höfðu þá lofað að afnema holræsagjaldið með öllu varð þetta ekki skilið öðru vísi en svo að R-listinn greiddi mönnum fyrir að fara á salernið. Á margur eftir að þéna vel á þessu með tímanum.

Árangur ársins: Stefán Jón Hafstein sagði að R-listinn, sem lofað hafði að „eyða biðlistunum“, hefði náð „100 % árangri í dagvistarmálum“. Þá voru 1883 börn á biðlistum.

Gáfnaljós ársins: Stefán Jón Einstein.

Bókhaldari ársins: Heilagur Þorfinnur Ómarsson.

Björn ársins: Björn Bjarnason, Bjössi.

Opnun ársins: „Nú bara opna ég Pandóruboxið mitt“ sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sérfræðingur í Kastljósi Ríkissjónvarpsins hinn 30. desember þegar hún var spurð hvað hún myndi hafa fram að færa í landsmálum. – Jamm, ætli það fari ekki eins og síðast þegar slíkt box var opnað. Plágur og böl spretti út en vonin sitji eftir á botninum.

Kunnátta ársins: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagnfræðingur fer á kostum í grískri goðafræði eins og öðru.

Fjöldahreyfing ársins: Í tveimur fjölmennustu bæjarfélögunum þar sem Vinstri-hreyfingin – grænt framboð bauð fram í eigin nafni, Kópavogi og Hafnarfirði, fékk flokkurinn samtals engan mann kjörinn. Og eru þá allir taldir með og engum sleppt.

Viðskiptahugmynd ársins: Boga Þór Siguroddssyni hugkvæmdist að kaupa Húsasmiðjuna.

Blíðuhót ársins: Formaður Samfylkingarinnar skrifaði forsvarsmönnum Baugs bréf, kallaði þá „hreinræktaða drullusokka“ sem ekki ættu „skilið virðingu samborgara sinna“. Hann myndi „aldrei gleyma þessu“ og myndi nýta það sem eftir væri af ævi sinni til að „lýsa fyrir samferðamönnum [sínum] hvers konar menn þetta eru“. Væri sér „létt um mál“ og hann „lipur með pennann“.

Leiðrétting ársins: „Ef Baugsveldið heldur að þetta sé aðferðin til að þagga niður í mér get ekki varist þess að upp í hugann komi hin fræga setning: You ain’t seen nothing yet“ bætti formaður Samfylkingarinnar við, svo ekkert færi milli mála.

Eigendur ársins: Fréttablaðið mun upplýsa um eigendur sína „á mánudaginn“.

Óli Þ. Guðbjartsson ársins: Sólveig Pétursdóttir.

Undanrenna ársins: Leiðarar Morgunblaðsins.

Innlegg ársins: Geir H. Haarde ákvað að skerast í leikinn í borgarstjórnarkosningunum og gaf skít í viljayfirlýsingu borgarinnar og heilbrigðisráðherra um byggingu hjúkrunarheimila fyrir aldraða.

Óvæntasti metnaður ársins: Margrét Sverrisdóttir lýsti því yfir – þvert á allar líkur – að hún væri fús til þess að verða formaður Frjálslynda flokksins.

Smámenni ársins: Litli landsímamaðurinn.

Feluleikur ársins: Hinn 31. júlí gerðist það að í kynningu á lagi gat dagskrárgerðarmaður Létts 96,7 þess ekki að lagið væri spilað „hér á Létt 96,7“. Hlustendur voru skildir eftir í óvissu sem ekki linnti fyrr en í næstu kynningu.

Frambjóðandi ársins: Jakob Frímann Magnússon kom sá og sigraði í prófkjöri Samfylkingarinnar. Enda sagðist hann berjast fyrir auknum markaðsáherslum.

Léttir ársins: „Styrmir kominn í búr í Húsdýragarðinum“ sagði í fréttum um miðjan desember. Jæja, kannski leiðararnir fari þá að skána.

Þjónusta ársins: Hvorki ríkissaksóknari né ríkislögreglustjóri gerðu handtak í máli Árna Johnsens án þess að senda frá sér fréttatilkynningu um stöðu málsins.

Framboðslisti ársins: Bæjarmálafélagið Hnjúkar á Blönduósi skilaði alls ekki inn framboði fyrir lok framboðsfrests. Með úrskurði héraðsdóms norðurlands vestra fékk félagið að bjóða fram samt. Kosningalögin gilda nefnilega ekki í Austur-Húnavatnssýslu.

Útgefandi ársins: Fréttablaðið ehf. Menn skulu varast að rugla því fyrirtæki við hið ágæta fyrirtæki Frétt ehf. – Fréttablaðið ehf. gaf út Fréttablaðið og safnaði skuldum í eitt og hálft ár áður en það fór á hausinn. Frétt ehf. gefur út Fréttablaðið og því koma skuldir Fréttablaðsins ehf. ekki við.

Seigla ársins: Íslandsmótinu í knattspyrnu lauk enn og aftur á því að Fylkismenn tóku þetta í síðustu umferðunum. – Þeir yrðu sennilega helvíti góðir í 15 umferða móti.

Hlutabréfakaup ársins: Ágúst Einarsson prófessor var dæmdur til að borga 42 milljóna króna eftirstöðvar 105 milljóna króna hlutabréfakaupa sinna í Frjálsri fjölmiðlun hf. Það hlýtur að vera skemmtilegt að skrifa 42 milljóna króna ávísun fyrir 5 % hlut í fyrirtæki sem búið er að úrskurða gjaldþrota.

Veruleikaskyn ársins: Presturinn hógværi, Örn Bárður Jónsson, er ekkert að ofmeta mikilvægi sitt í veröldinni.

Lesandi ársins: Úlfhildur Dagsdóttir liggur yfir bókum Mikaels Torfasonar og nýtur hverrar blaðsíðu.

Leiksýning ársins: Eftir lítilsháttar sýndarágreining hertók nýr meirihluti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar Áslandsskóla. Enda er Samfylkingin alltaf jafn frjálslynd og framfarasinnuð þegar til kastanna kemur.

Grís ársins: Það er nú augljóst.

Sannfæring ársins: Guðrún Gunnarsdóttir söngkona og fréttamaður á það við sannfæringu sína hverja hún talar við í sjónvarpi og hverja ekki. Þetta þykir ákaflega fínt.

Áfangi ársins: Einkavæðing Landssímans gekk ekki alveg eins og ætlunin var.

Umskipti ársins: Sjónvarpsmaðurinn knái, Gísli Marteinn Baldursson, ákvað að kúvenda og bjóða sig fram til borgarstjórnar Reykjavíkur.

Kúvending ársins: Varaborgarfulltrúinn geðþekki, Gísli Marteinn Baldursson, ákvað að skipta um starfsvettvang og stjórna skemmtiþætti í Sjónvarpi.

Ekkert ársins: Það sem fjármálaráðherra hefur gert til að fara eftir ítrekuðum tilmælum landsfunda Sjálfstæðisflokksins um breytingar á fæðingarorlofslögunum.

Loforð ársins: Í viðtali við Morgunblaðið 19. maí sagðist Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verða borgarstjóri næstu fjögur ár nema hún hrykki upp af. „Ég er ekki á leið í þingframboð að ári ef það er spurningin sem undir liggur“ bætti hún við svo ekkert færi milli mála.

Árétting ársins: „Já ég fullyrði algerlega að ég er ekki að fara í þingframboð að ári. Það er alveg ljóst“ bætti Ingibjörg Sólrún við í viðtali við Ríkisútvarpið viku síðar.

Ítrekun ársins: „Ég bauð mig fram til að vera í fjögur ár. Mér finnst ég skuldbundin mjög mörgu fólki í því sambandi“ svaraði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þegar hún var að kosningum loknum spurð hvort til mála kæmi að hún færi í þingframboð þrátt fyrir allt.

Skilningur ársins: „Ástæða þess að ég tel nær útilokað að Ingibjörg Sólrún fari fram til Alþingis er einföld. Skýrar yfirlýsingar hennar um hið gagnstæða í borgarstjórakosningunum í vor. Það eru ekki aðeins pólitískir andstæðingar sem vilji höggva í trúverðugleika hennar sem spyrja hvort þær yfirlýsingar standi ekki heldur margt af harðasta stuðningsfólki hennar. Þessi spurning skiptir lykilmáli þar sem pólitískur styrkur Ingibjargar Sólrúnar byggist ekki síst á trúverðugleika“ skrifaði Dagur B. Eggertsson í Morgunblaðsgrein 7. september.

Efndir ársins: Þær blasa nú við öllum.

Erindi ársins: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gaf þá skýringu á þingframboði sínu að það hefði gerst að tveir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hefðu boðið sig fram til þings og því yrði að mæta. Alltaf lá fyrir að Björn Bjarnason var á þingi svo Ingibjörg Sólrún hættir sem borgarstjóri til þess að verða mótvægi við Guðlaug Þór Þórðarson.

Tímasetning ársins: Heimasíða Heimdallar fór í frí fyrir jól og verður ekki uppfærð fyrr en með nýju ári. Hvað ætli gerist svo sem um hátíðarnar?

Óþægindi ársins: Sjónvarpsstöðinni Ómega barst á árinu fjárframlag frá áhorfanda. Þetta kom illa við forsvarsmenn stöðvarinnar enda hafa þeir jafnan beðist undan slíkum gjöfum.

Forföll ársins: Fimmhundruð Akurnesingar sáu fram á að verða utanbæjar og þágu því gott boð og kusu utankjörfundar í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í norðvesturkjördæmi.

Sérfræðingar ársins: Um miðjan júní varð næstum hver einasti landsmaður sérfróður um tiltekna kínverska andófshreyfingu. Allir vissu hvernig ætti að bregðast við hópferðum félaga hennar hingað til lands.

Auðmýkt ársins: Hópur manna fann skyndilega hjá sér hvöt til að kaupa auglýsingar í blöðunum og tjá sig þar fyrir hönd gervallrar þjóðarinnar í umdeildu máli.

Skipsheiti ársins: Kafteinninn á Carlsberg var tekinn fullur.

Laun ársins: Guðjón Þórðarson kom Stoke City upp í 1. deild ensku knattspyrnunnar. Hann var þegar í stað látinn hætta störfum.

Lærdómur ársins: Guðjón Þórðarson lærði sína lexíu og náði í framhaldi af þessu engum árangri með norska liðið Start sem féll úr norsku úrvalsdeildinni. Ekki er annað vitað en forráðamenn liðsins hafi verið hæstánægðir með störf Guðjóns.

Frændþjóð ársins: Svíar eru enn að leita leiða til að koma Íslendingum út úr Alþjóða hvalveiðiráðinu. Þetta er þjóðin sem Evrópusinnarnir segja að yrði okkur jafnan innan handar ef við gengjum í Evrópusambandið.

Dreymandi ársins: Í árslok fullyrti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í útvarpsviðtali að hún gengi ekki með ráðherradrauma. Með öðrum orðum: Hana dauðlangar að verða ráðherra.

Erindisleysa ársins: Haraldur Örn Ólafsson hélt áfram för sinni á árinu og nú lá leið hans á tind Everest. En, því miður, jafn árangurslaust og áður. Hann fann þar ekki það sem hann leitaði að og fór strax niður aftur.

Tryggð ársins: Haraldur Örn þarf ekki annað en fara úr húsi og þá er bakvarðasveitin mætt í Útilíf og hringir í hann. Öll klædd í flísgalla.

Staðfesta ársins: Þórólfur Árnason, væntanlegur framkvæmdastjóri Reykjavíkurborgar, segist hafa kosið alla flokka. Sem er góð frammistaða, sérstaklega þegar horft er til þess að að þrír þeirra hafa aðeins boðið fram einu sinni og það í sömu kosningunum.

Æsingamaður ársins: Sennilega hefur enginn Bandaríkjaforseti farið jafn sparlega með jafn umfangsmikið vald til jafn mikillar beitingar jafn mikils hervalds og George W. Bush hefur gert á árinu. Á Íslandi þykir fínt að kalla hann stríðsóðan fávita.

Hagkvæmi ársins: Borgarstjóri benti á að hraðlest milli Reykjavíkur og Keflavíkur yrði arðbær. Ef ekki væri gert ráð fyrir kostnaði við að koma henni á fót.

Stuðningur ársins: „Þegar verið er að brjóta jarðveg fyrir nýjar greinar þarf stundum að taka áhættu og sem stjórnmálamaður er ég persónulega reiðubúinn til þess“ sagði Össur Skarphéðinsson í viðtali við Morgunblaðið þegar hann lýsti því yfir að hann styddi eindregið ríkisábyrgð vegna hugmynda um nýja starfsemi á vegum Íslenskrar erfðagreiningar.

Andstaða ársins: „Lyfjaþróunargeirinn er með áhættusömustu atvinnugreinum veraldar“ sagði í nefndaráliti Össurar Skarphéðinssonar á Alþingi enda gat Össur alls ekki stutt ríkisábyrgð vegna hugmynda um nýja starfsemi á vegum Íslenskrar erfðagreiningar.

Forstjóri ársins: Þórarinn V. Þórarinsson ræktaði garðinn sinn.

Buslarar ársins: R-listinn.

Fréttaboði ársins: „Flokkarnir þrír sem standa að Reykjavíkurlistanum voru að funda hver í sínu lagi og þar sem við sitjum í borgarstjórn að sameiginlegri ábyrgð þeirra þriggja en ekki einhvers eins þá kannski vorum við ekki á neinum þessara funda og gátum þess vegna borið þessar réttu upplýsingar á milli og fannst það mikilvægt“ sagði Dagur B. Eggertsson séní í viðtali við Ríkisútvarpið 29. desember. Þetta er alveg rétt hjá Degi. Bestu mennirnir til að flytja fréttir af fundum eru þeir sem alls ekki hafa setið þá.

Áhugi ársins: Fjölmiðlamenn gengu af göflunum þegar þeir komust að því að stjórnarformaður Landssímans og samgönguráðherra höfðu samið um sérverkefni stjórnarformannsins fyrir fyrirtækið án þess að stjórn þess hefði samþykkt það.

Áhugaleysi ársins: Fjölmiðlamenn höfðu ekki nokkurn áhuga á því þegar í ljós kom að borgarstjórinn í Reykjavík hafði samið við stjórnarformann Strætó um sérverkefni stjórnarformannsins fyrir fyrirtækið án þess að stjórn þess hefði samþykkt það. Eða aðrir eigendur.

Fréttamat ársins: Við stærsta eldsvoða sem Reykvíkingar hafa séð í háa herrans tíð þótti fréttamönnum það eitt áhugavert að ekki var boðið upp á áfallahjálp um leið og íbúar stukku út úr húsum sínum.

Endurkoma ársins: Walter Mondale, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, sneri aftur með glæsibrag, bauð sig fram til öldungadeildar Bandaríkjaþings, tapaði fjórum dögum síðar og fór tómhentur heim. Ætli Carter-tímabilinu verði lýst með snaggaralegri hætti?

Kjarakaup ársins: Með lagni og hörku í réttum hlutföllum náði Alfreð Þorsteinsson samningum við Alfreð Þorsteinsson um að Orkuveita Reykjavíkur keypti ljósleiðarakerfi Línu.nets á 1,7 milljarða króna takk fyrir. Jafnframt keypti Orkuveitan átta þúsund vandaða yddara og einar nærbuxur af Sölunefnd varnarliðseigna.

Fjölmiðill ársins óskar lesendum sínum velgengni og góðvildar á komandi ári.