Tímaritið Time valdi á dögunum þrjár konur sem menn ársins 2002. Eru þær þar með konar í hóp með mönnum á borð við Adolf Hitler sem var maður ársins 1938, Stalín sem hreppti hnossið tvisvar og æðstaprestinum Khomeini.
Þessar þrjár konur eiga það sameiginlegt að mati Time að hafa veitt mikilvægar upplýsingar um ólöghlýðna eða vanhæfa vinnuveitendur sína. Þær voru sum sé valdar fyrir uppljóstranir. Ein þeirra er Sherron Watkins fyrrum næstráðandi hjá Enron. En var Watkins uppljóstrari? Sumarið 2001 skrifaði Watkins stjórnarformanni fyrirtækisins Kenneth Lay bréf þar sem hún benti honum á að reikningsskil fyrirtækisins væru ekki í lagi. En þessar athugasemdir hennar komu ekki fram opinberlega fyrr en ári síðar þegar rannsóknarnefnd á vegum þingsins gerði þær heyrinkunnugar.
Í grein í The Wall Street Journal í vikunni er einmitt bent á að þeir sem vilji gerast uppljóstrarar í bankaráni eigi ekki að hringja í bankaræningjana og tilkynna um ránið heldur í lögregluna. Watkins ritaði hins vegar stjórnarformanninum bréf og varaði hann við því að með sama áframhaldi kæmist upp um hann. Hann fullvissaði hana um að allt væri í sómanum og fékk meira að segja eigin lögfræðistofu til að fara yfir málið. Stofan sú komst að sömu niðurstöðu um haustið 2001. Skömmu síðar hrundi spilaborgin og á meðan öllu þessu stóð sagði Watkins ekki orð. Hún þagði eins og svo margir aðrir sem vissu hvað var á seyði. Hún er þó sú eina sem uppskar titilinn „Maður ársins“ fyrir þagmælskuna.