N
ú í vikunni gengu samningamenn Chile og Bandaríkjanna frá fríverslunarsamningi milli ríkjanna. Fyrr á árinu gerði Chile fríverslunarsamninga við ESB og Suður-Kóreu og hefur einnig samskonar samning við Kanada. Samtals hefur Chile fríverslunarsamninga við 55% af hagkerfi heimsins. Í janúar hefjast svo viðræður milli Chile og EFTA ríkjanna, þar með talið Íslands, um fríverslunarsamning.
Eins og þessi frammistaða Chilemanna sannar þá geta sjálfstæð ríki samið um hagstæð viðskiptakjör við önnur lönd án þess af frelsi og fullveldi þeirra sé stefnt í voða. Kannski gætu þeir samningamenn sem sitja þessa fundi fyrir Íslands hönd lært eitthvað af samningamönnum Chile. Sjálfur utanríkisráðherra Íslands hefði þó umfram aðra gott af því að fylgjast með því hvernig svona fríverslunarsamningar eru gerðir án þess að menn leggist eins og þægir seppar í kjöltuna á viðsemjendum sínum.
Íslendingar gætu þá átt fleira sameiginlegt með Chilemönnum en forsjálni í lífeyrismálum. En í Chile hafa menn frá 1980 safnað í einkarekna lífeyrissjóði í stað þess að láta hverjum degi nægja sína þjáningu eins og gert er í flestum ríkjum ESB með þeim fyrirsjáanlegu afleiðingum að stórhækka þarf skatta í framtíðinni eða snarlækka ellilífeyri nema hvort tveggja sé.