Ég held hins vegar að almenn skattalækkun við núverandi aðstæður væri ekki skynsamleg. … Það teldi ég ekki ráðlegt á meðan uppsveifla er jafnmikil í efnahagslífinu og nú er. |
– Geir H. Haarde fjármálaráðherra í Morgunblaðinu 13. ágúst 2000. |
En nú rúmum tveimur árum síðar er ekki jafnmikil uppsveifla í efnahagslífinu eða réttar sagt engin uppsveifla. Og Íslendingar hafa aldrei greitt jafnhátt hlutfall tekna sinna í tekjuskatt og einmitt nú. Miklar launahækkanir eru meginskýringin á þessari þróun en skattkerfið tekur stærri hlut af mönnum þegar tekjur þeirra hækka. Þeim mun mikilvægari eru almennar skattalækkanir nú. Eða, ef þær eru ekki mikilvægar nú, eru þær það þá aldrei að mati fjármálaráðherrans? Um það er ekki gott að fullyrða því engar nýjar ákvarðanir um lækkun á tekjuskatti einstaklinga hafa verið teknar frá því hann tók við. Annar stjórnmálamaður sem haft hefur uppi svipaðan málflutning að þessu leyti er formaður Samfylkingarinnar, en hann taldi það hagstjórnarmistök að lækka skattana þegar uppsveifla var í efnahagslífinu. Fyrst þessir menn áttu góða samleið um að standa gegn skattalækkun í uppsveiflunni munu þeir vonandi geta staðið saman um skattalækkun nú og því ætti fyrirstaðan á þingi ekki að verða mikil.
Hætt er þó við að enn muni finnast rök gegn lækkun skatta, því sumir virðast alltaf finna slík rök. Og það er með málstað þeirra sem standa gegn skattalækkunum eins og annan málstað, ævinlega má finna rökstuðning ef viljinn er nægur. Eitt af því sem menn munu líklega reyna að hengja sig í er að útgjöld hafi vaxið mikið, að hluta til vegna þess að laun opinberra starfsmanna hafa hækkað um 50% á fjórum árum, sem er langt umfram það sem aðrir launþegar hafa fengið í sinn hlut. Aukin útgjöld geta hins vegar ekki verið afsökun fyrir því að halda sköttum háum. Taka verður á útgjaldaaukningunni og er nærtækt að nefna margföldun útgjalda vegna fæðingarorlofs, en á þeim lið einum hefur orðið margra milljarða króna útgjaldaaukning vegna þess að foreldrar á háum launum hafa verið settir á hæstu velferðarbætur sem um getur.
Lækkun tekjuskatts á fyrirtæki hefur skilað góðum árangri allan síðastliðinn áratug og tekjur af skattinum hafa aukist jafnt og þétt eftir því sem skatthlutfallið hefur verið lækkað. Ekki er ástæða til að reikna með öðru en áhrifin væru í sömu átt ef tekjuskattur á einstaklinga væri lækkaður. Með lægra skatthlutfalli myndi skatturinn innheimtast betur og með því að draga úr jaðaráhrifum skattkerfisins myndu uppgefin laun hækka. Það þarf því ekki að búast við að öll lækkun tekjuskattsins væri „tap“ fyrir ríkið, en auðvitað á þó að stefna að því að ríkið „tapi“ töluverðu af þeim tekjum sem það hefur nú, því þá græða skattgreiðendur. Tekjur ríkisins eru allt of háar og löngu kominn tími til að fjármálaráðherra hætti að hugsa um að afla meiri tekna og fari þess í stað að skera niður útgjöld og minnka tekjurnar.