Miðvikudagur 27. nóvember 2002

331. tbl. 6. árg.

amtök sem nefna sig „Barnaheill“ hafa nú farið fram á það að hús nokkurt sem hið opinbera hefur rekið, „Barnahús“ svo kallað, verði gert að sjálfstæðri stofnun sem engum yrði háð nema sjálfri sér. Yrði það breyting frá því sem nú er, en nú heyrir „barnahús“ þetta undir opinbera stofnun sem nefnd er því nútímalega nafni, „Barnaverndarstofa“. Breyting þessi sem „Barnaheill“ leggja til yrði liður í þeirri viðleitni margra að auka hlut „barnahúss“ þessa í rannsókn og meðferð sakamála sem höfðuð eru gegn þeim sem grunaðir eru um brot gegn börnum. Í þeirri baráttu hafa ýmsir gert háværar kröfur um að blessuð börnin gefi skýrslur sínar eingöngu í þessu „barnahúsi“, þar sem nútímalegir sérfræðingar tali við þau en ekki einhverjir illilegir dómarar eða sálarlausir lögmenn.

Nú vilja væntanlega fæstir að illa sé farið með börn. Og ekki vill Vefþjóðviljinn að illa sé farið með þau, á rétt þeirra gengið eða að brot gegn þeim séu ekki upplýst og fyrir þau hegnt. Engu að síður er eitthvað undarlegt við þá hugmynd að draga hartnær fullorðna einstaklinga inn í „barnahús“ og taka af þeim skýrslur þar. Það eru beinlínis til menn sem vilja að til dæmis 17 ára unglingar séu aðeins yfirheyrðir í „barnahúsi“. Í munni sumra virðist barnahúss-talið reyndar stundum bera meiri keim af krossferð en venjulegri umhyggju fyrir varnarlausum börnum. En það er líka með þetta mál eins og svo mörg önnur, að trúin á sérfræðingana verður öllu yfirsterkari. Hver segir að dómarar, sem rétt eins og allir sálfræðingarnir eru menn af holdi og blóði, geti ekki rætt við börn og unglinga? Hvers vegna má það ekki einu sinni vera matsatriði í hvert og eitt skipti hvar og hvernig yfirheyrsla fer fram?

Ekki vill Vefþjóðviljinn gera óþarflega lítið úr því starfi sem unnið er á „Barnaverndarstofu“ en „Barnaverndarstofa“ rekur fleira en hið marglofaða „barnahús“. Hún stendur einnig fyrir meðferðarheimilum hér og hvar um landið. Einu slíku var reyndar lokað nýlega og þegar það hafði verið gert skrifaði kona nokkur, sem verið hafði nágranni þess heimilis, Ingunn Snædal á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal, svohljóðandi „Opið bréf til Braga Guðbrandssonar“ forstjóra Barnaverndarstofu í Morgunblaðið:

Opið bréf til Braga Guðbrandssonar
Nú er stuttum en stormasömum rekstri meðferðarheimilis á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal lokið og allir eru fegnir. Allir nema kannski þeir sem endilega vilja búa við hliðina á fólki sem ítrekað fer inn í skúra og skemmur í óleyfi eigenda, stelur þar bensíni og gasi til eigin vafasamra nota, stelur bjór úr bílum og drekkur og bætir síðan kolsvörtu ofan á það sem sannarlega var nógu svart fyrir með því að stela bílnum og klessa hann. Þetta hefur fjölskylda mín búið við undanfarið og er sjálfsagt öfundsverð af því. Auðvitað fást engar bætur fyrir skaðann, enginn er ábyrgur fyrir neinu, í öllu falli ekki þeir sem meðferðarheimilið reka. Ætli þýði að senda þér reikninginn? Þegar stóð til að hefja rekstur meðferðarheimilis hér voru bændur á Skjöldólfsstöðum ekki of hrifnir og voru þá úthrópaðir ákaflega vondir menn, á móti endurhæfingu ungs fólks sem lent hefði á villigötum og fleira þess háttar. Þú sagði yfirlætislegur í útvarpsviðtali að fólk væri svo oft hrætt við það sem það skildi ekki og áttir við okkur. Enda, hvernig á fáfrótt landsbyggðarfólk að skilja þessi háu vísindi frá Reykjavík, við sem förum aldrei  „í bæinn“? Þú sagðir margt fleira og ekki víst að þú kærir þig um að vera minntur á það núna. Eitt af sterkustu vopnunum til að yfirvinna andstöðu heimafólks var loforðið um að á meðferðarheimilið yrðu aldrei sendir nema unglingar í yngri kantinum (13-15) og aldrei neinir sem væru þannig á sig komnir að þeir gætu verið hættulegir. Það er þá líklega einhver önnur ástæða fyrir því að síðan í vetur hefur starfsfólk á heimilinu þurft að fela alla hnífa og oddhvassa hluti? Frá því að þetta heimili opnaði hefur öllum sem eitthvað hafa kynnst sér málið verið ljóst að hér er kerfisklúður á ferðinni, verið að moka peningum í eitthvað sem engum var til góðs, í öllu falli ekki þeim ólánssömu unglingum sem hingað voru sendir. Það besta sem fyrir þá kom var þegar þeir fengu að fara á sveitabæi hér í kring og vinna. Bændur hér höfðu fengið þá umsögn hjá þér á fundi hér í sveitarfélaginu áður en heimilið opnaði að þeir kynnu ekkert að vinna með ungmenni á glapstigum. Að þessum ummælum þínum voru mörg vitni. Merkilegt nokk enduðu margir unglinganna fyrr eða síðar akkúrat hjá þessum sömu bændum sem ekkert kunna – og undu hag sínum ólíkt betur en hjá „fagfólkinu“ á meðferðarheimilinu. Bændur fæddu þá og borguðu þeim einhver laun, þrátt fyrir að á hálftómu heimilinu sæti fólk á fullu kaupi við einmitt það. Sjálfsagt einhver snilldarhagfræði þar á ferð sem dylst mér, ekki getur verið um óstjórn og fjármálasukk að ræða? Ef þú skyldir einhvern tímann eiga leið hérna austur máttu vera viss um góðar móttökur, hér býr göfuglynt og hugumstórt fólk sem bregst aldrei þegar á reynir. Mikið lifandis ósköp vona ég þó að við þurfum hvorki að sjá þig né heyra ómerkilegt bullið í þér alveg á næstunni.
Ingunn Snædal, Skjöldólfsstöðum, Jökuldal.