Prófkjörum er nú lokið hjá þeim stjórnmálaflokkum sem nota þá aðferð við val frambjóðenda sinna við komandi alþingiskosningar. Hafa þau vakið talsverða athygli og í tengslum við þau hafa fjölmiðlar einnig fjallað almennt um prófkjör og rifjað upp fréttir af eldri prófkjörum. Þannig sagði Fréttablaðið prófkjörssögur nú á laugardaginn og kom þar ýmislegt fram sem ekki hefur áður verið á vitorði manna. Ræddi blaðið meðal annars við Ólaf Þ. Harðarson sem mun vera prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og mikill sérfræðingur um íslenska stjórnmálaflokka. Jæja, Ólafur fór að tala um nafna sinn einn sem einnig var lengi prófessor í sömu gagnmerku fræðigrein, Ólaf Ragnar Grímsson, og taldi sögu hans sýna að menn gætu farið illa út úr prófkjörum án þess að vera úr leik í stjórnmálum: „Hann vann vel innan flokksins og gerði mikið úr þeim stofnunum sem hann var í forsvari fyrir. Þá vakti hann athygli sem forseti alþjóðlegra þingmannasamtaka og lagði Svavar Gestsson í formannsslag 1987.“
Svo segir Ólafur Þ. Harðarson og þarf víst litlu við það að bæta. Nema þá ef til vill því að Svavar Gestsson var hreint ekki í kjöri til formanns Alþýðubandalagsins árið 1987. Ólafur Ragnar var reyndar kjörinn formaður Alþýðubandalagsins þetta ár, en hann sigraði hins vegar Sigríði Stefánsdóttur, bæjarfulltrúa á Akureyri, eins og flestir muna sem ekki eru prófessorar í stjórnmálafræði. Ekki bar þó á því að ósigur Sigríðar væri tekinn til marks um að Alþýðubandalagið „hafnaði konum“, en eins og menn vita er slíkt jafnan hrópað ef kona sigrar ekki í kosningum í vissum öðrum stjórnmálaflokkum. Slíkum hrópurum virðist ekki koma til hugar að kona geti tapað kosningu af öðrum ástæðum en að hún sé kona. En ef karlmaður tapar kosningu, jafnvel sömu kosningu og kona tapar „af því að hún er kona“, til dæmis í prófkjöri þar sem bæði karlar og konur verða í þeim hópi sem ekki nær þeim árangri sem ætlunin var, þá dettur ekki nokkrum manni í hug að kjósendur hafi verið að „hafna karlmanni“. Hvenær í ósköpunum ætla feministar landsins að hætta að telja sjálfum sér og öðrum trú um að konur tapi kosningum af því að þær eru konur? Hvenær ætla menn að átta sig á því að það eitt skiptir máli hvað frambjóðendur hafa til brunns að bera og fyrir hvað þeir standa? Kynferði þeirra skiptir nákvæmlega engu máli.