Helgarsprokið 24. nóvember 2002

328. tbl. 6. árg.

Fyrir tveimur vikum var í helgarsproki fjallað um þá nýafstaðið prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík. Eins og menn muna gekk á þeim tíma fjölmiðlamaður undir manns hönd til að gefa villandi mynd af því prófkjöri. Gerðu þeir til dæmis engar athugasemdir við fráleitar fullyrðingar Össurar Skarphéðinssonar um „traustsyfirlýsingu“ við sig eða um að „kynslóðaskipti“ hefðu orðið með því að þingmenn flokksins hefðu allir sem einn raðast fyrir ofan vongóða nýliða. Vefþjóðviljinn var ekki, fremur en stundum áður, meira en mátulega sammála fjölmiðlamönnum eða öðrum atvinnugösprurum og dró niðurstöðu prófkjörsins saman í nokkrum orðum og skoraði á hvern sem vildi að andmæla þeim:

* Þátttakan í prófkjörinu í Reykjavík varð afar lítil miðað við allt tilstandið. Rúmlega þrjú þúsund manns eftir auglýsingaherferðir og smalanir.

* Formaður flokksins, sem nauðsynlega þurfti á traustsyfirlýsingu að halda, hann rétt náði helmingsfylgi og það án þess að nokkur sækti að honum.

* Vonarstjarnan Bryndís Hlöðversdóttir – með fulltingi annarar vonarstjörnu og ekki daufari – gerði árangurslausa tilraun til að þoka Jóhönnu Sigurðardóttur úr forystunni. Flokkurinn mun því hafa á öðrum oddinum og sem ráðherraefni Jóhönnu Sigurðardóttur sem er enn með jafn mikið á hornum sér og þegar hún var fyrst kjörin á þing fyrir aldarfjórðungi.

* Stuðningsleysi annarra forystumanna við formann flokksins varð enn meira áberandi. Er nú með öllu útilokað að breiða yfir það með fölskum yfirlýsingum úr því enginn gat stutt formanninn þegar hann raunverulega þurfti á því að halda.

* Nýi maðurinn, stuðmaðurinn, sem átti að draga nýja fylgið að flokknum, hann rétt hafði Birgi Dýrfjörð.

* Ef ný kjördæmaskipun verður til þess að Samfylkingin fær möguleika á að bæta við sig þingmanni í Reykjavík, þá yrði viðbótin og ferskleikinn, maður nýja tímans… Mörður Árnason.

* Og ef skoðanakannanir verða Samfylkingunni hagstæðar í kosningabaráttunni þá munu menn sjá að hugsanlegt er að annar nýr og mætur maður komist að. Helgi Hjörvar!

Nú hefur því verið haldið fram að sanngirni sé afstætt hugtak en allt um það, einhverjum þykir kannski sanngjarnt að Vefþjóðviljinn athugi nýafstaðið prófkjör Sjálfstæðisflokksins með sama hætti. Ef það er gert þá verður niðurstaðan slík að sterk bein og talsverða heift – og helst ákveðna örvæntingu með – þarf til að sjá ekki hversu ólíkt félagar í þessum tveimur flokkum höfðust að. Í fyrsta lagi var þátttakan með öllu ósambærileg. Eftir látlausar smalanir kusu aðeins 3.605 manns í prófkjöri Samfylkingarinnar. Prófkjörsbarátta sjálfstæðismanna varð mun hófstilltari en engu að síður greiddu 7.450 manns atkvæði þeim megin.

Eitt af því sem mest stakk í augun í prófkjöri Samfylkingarinnar hversu ótrúlega lítinn stuðning formaður flokkins svokallaður, Össur Skarphéðinsson að nafni, á meðal eigin flokksmanna. Þrátt fyrir að allir hafi mátt sjá hversu mikil nauðsyn honum var á að sýna þó ekki væri nema einu sinni sæmilegan styrk, þá tókst aðeins rúmlega helmingi kjósenda að styðja hann í efsta sætið. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, náði efsta sætinu með 1.989 atkvæðum og sagði það öllum öðrum en fréttamönnum að 1.616 flokksmenn studdu hann ekki í efsta sætið. Það eru tæplega 45 % flokksmanna. Þegar horft er yfir til sjálfstæðismanna sést að þeir eru ánægðari með sinn formann, en formaður Sjálfstæðisflokksins hlaut 6.031 atkvæði í efsta sætið, sem er rúmlega 80 % greiddra atkvæða og hæsta hlutfall sem formaður Sjálfstæðisflokksins hefur nokkru sinni hlotið í prófkjöri í Reykjavík. Hinir tveir helstu forystumenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, þeir Geir H. Haarde og Björn Bjarnason fengu einnig mikinn stuðning, sérstaklega Björn sem fékk fleiri atkvæði í þriðja sæti en keppinautar hans, Sólveig Pétursdóttir og Pétur Blöndal gerðu til samans.

Ef litið er á nýliðun í prófkjörunum þá er munurinn eins sláandi og verða má. Í prófkjöri Samfylkingarinnar urðu þingmenn flokksins efstir. Allir. Enginn nýliði náði að skjótast milli þeirra í vænlegt sæti. Enginn. Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins komust þrír ungir frambjóðendur, sem allir voru í sínu fyrsta þingprófkjöri, í sæti sem telja má líkleg þingsæti, þeir Guðlaugur Þór Þórðarson sem lenti í 6. sæti, Sigurður Kári Kristjánsson sem hafnaði í 7. sæti og Birgir Ármannsson sem náði 10. sæti. Allir hafa þeir á liðnum árum barist af krafti fyrir frjálslyndum skoðunum þó framganga þeirra hafi að sönnu verið ólík í áranna rás. Er ekki að efa að Sjálfstæðisflokkurinn færist enn í frjálsræðisátt ef þessir ungu menn bætast í þingflokk hans og hlýtur það að vera fagnaðarefni öllu frjálslyndu fólki. Samfylkingin á hinn bóginn, hún færðist fremur í stjórnlyndisátt í sínu prófkjöri sínu með miklu gengi frambjóðenda eins og þeirra Þjóðvakasystra, Jóhönnu Sigurðardóttur og Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur.

Ljóst er að munurinn á prófkjöri þessara tveggja flokka er svo áberandi að stuðningsmenn annars þeirra hafa ríka ástæðu til að óttast um sinn hag. Munu þeir því reyna það sem þeir geta til að leiða athygli fólks frá því sem máli skiptir og freista þess að rugla fólk í ríminu. Sennilega munu þeir helst reyna að tala um hlutfall kynja á væntanlegum framboðslistum enda er slík tölfræði líkleg til að höfða best til þeirra sem sjaldnast hafa áhuga á aðalatriðum mála. Ef gert er ráð fyrir því að væntanlegir framboðslistar Sjálfstæðisflokksins verði í öllum aðalatriðum eftir niðurstöðum prófkjörsins í gær þá verða fjórar konur í þeim tólf manna hópi sem á góða möguleika á þingsæti. Líklega munu andstæðingar flokksins reyna að gera sem minnst úr þessum hlut kvennanna og eflaust munu einhverjir gleypa þann málflutning. Engu mun skipta fyrir slíkt fólk þó það séu einnig aðeins fjórar konur sem eiga raunhæfa möguleika á þingsæti fyrir Samfylkinguna í báðum kjördæmum Reykjavíkur til samans. Í huga þeirra þar sem aukaatriði eru aðalatriði, þar munu aðalatriði aldrei verða annað en aukaatriði. Og það sem í raun blasir við, það verður slíku fólki alltaf hulið.

Og ef Vefþjóðviljinn reynir að draga saman prófkjör Sjálfstæðisflokksins með sama hætti og prófkjör Samfylkingarinnar, ætli það yrði þá ekki eitthvað á þessa leið.

* Þátttaka í prófkjörinu varð mun meiri en búist var við, þrátt fyrir að frambjóðendur hafi flestir farið með löndum og opinberar hópinngöngur í flokkinn að mestu takmarkast við Stefán Hrafn Hagalín.

* Helstu forystumenn flokksins, formaður, varaformaður og oddviti borgarstjórnarflokksins, fengu ótvíræða traustsyfirlýsingu félaga sinna.

* Þrír ungir og öflugir nýliðar fengu mikinn stuðning og eru líkleg þingmannsefni.

* Í baráttusætum Reykjavíkurkjördæmanna verða að líkindum þær Lára Margrét Ragnarsdóttir og Katrín Fjeldsted. Ætla feministar að vinna gegn kjöri þeirra? Og vilja fá í þeirra stað karlmenn af listum Samfylkingarinnar?