Kristján L. Möller þingmaður Samfylkingarinnar lagði spurningar fyrir menntamálaráðherra á Alþingi á dögunum. Kristján vill meðal annars fá að vita hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir bættum móttökuskilyrðum Ríkisútvarpsina á Raufarhöfn og Kópaskeri jafnframt því sem hann vill fá fram afstöðu ráðherrans til þess að þeir greiði fullt afnotagjald sem búi við léleg hljóð- og myndgæði. Kristján er þeirrar skoðunar að þeir sem ekki hafi aðgang að fullkomnum hljóð- og myndgæðum eigi ekki að greiða fullt gjald. Kristján hefur nokkuð til síns máls, ósanngjarnt er að þeir sem ekki geta nýtt útsendingarnar greiði fyrir þær. En Raufarhöfn og Kópasker eru afskaplega fámenn byggðalög, svo þetta er ekki fjölmennasti hópurinn sem Ríkisútvarpið fer illa með. Nefna má að fjöldi fólks vill gjarnan eiga sjónvarpstæki til að geta horft á myndbönd, gervihnattasjónvarp, Skjá einn eða Omega, en hefur lítinn eða engan áhuga á Ríkissjónvarpinu. Þessi hópur er, líkt og íbúar Raufarhafnar og Kópaskers, neyddur til að greiða Ríkisútvarpinu skatt af þeirri ástæðu einni að hann á sjónvarpsviðtæki, en ekki vegna þess að hann nýti sér útsendingar Ríkissjónvarpsins.
Einhverjum hefur dottið í hug að lausnin á þessu ranglæti sé að hætta að innheimta afnotagjald en setja Ríkisútvarpið þess í stað á fjárlög. Þannig á að ná réttlátri niðurstöðu með því að láta ekki aðeins þá sem búa við léleg útsendingarskilyrði, eða eiga sjónvarpstæki án þess að horfa á útsendingar Ríkisútvarpsins, greiða fyrir útsendingarnar. Nú á að bæta þeim við sem eiga alls ekki sjónvarpstæki. Þannig yrði væntanlega farið að innheimta nefskatt af landsmönnum, þ.e. að hver maður greiði tiltekna upphæð til Ríkisútvarpsins fyrir að það skuli senda út dagskrá sína.
Þessi „lausn“ leysir vitaskuld engan vanda. Áfram munu þeir greiða fyrir útsendingar Ríkisútvarpsins sem hvorki vilja heyra þær eða sjá og líka þeir sem geta alls ekkert heyrt eða séð af þessum merku útsendingum ríkisins. Sú eina lausn sem fær er til að ná fram einhverri sanngirni er að ríkið hætti rekstri þessa fjölmiðils og komi honum í hendur einkaaðila. Þá greiða þeir sem nota en hinir eru látnir í friði og nota peningana sína í það sem þá langar.