Fjármálaráðherra gaf á dögunum út reglugerð sem kemur í veg fyrir að menn geti leigt sér bíl á bílaleigu ef þeir sjálfir eða menn þeim tengdir hafa gert það áður, einhvern tíma á síðustu 45 dögum. Þó þessi regla hljómi afar einkennilega við fyrstu og jafnvel aðra heyrn, þá er á henni önnur skýring en að ráðherrann hafi hreinlega misst vitið. Þannig háttar nefnilega til að fyrir nokkru var reglum breytt svo bílaleigur greiddu lægri opinber gjöld af bifreiðum en áður. Þá átti að aðstoða bílaleigur sem báru mikinn kostnað af bifreiðakaupum. Vantaði ekki að þessi undanþága væri rökstudd eins og slíkar undanþágur jafnan eru; þetta átti að verða lyftistöng fyrir bílaleigur, þær gætu lækkað gjaldskrá sína, ferðamenn leigt fleiri bíla og farið víðar um og eytt og eytt peningum um allt land.
Og bílaleigurnar hafa hagnast á þessu. En það sem mönnum hefur þótt verra er að þær hafa fært út kvíarnar. Þær hafa sumar tekið að bjóða nokkurs konar rekstrarleigu á bílum, og þá í samkeppni við bílaumboðin sem ekki njóta sama opinbera stuðnings og leigurnar. Hinni nýju reglugerð fjármálaráðherra er ætlað að hindra það að fyrirtæki geti haft starfsmenn sína eingöngu á bílaleigubílum, enda mun mönnum ekki hafa þótt sanngjarnt að stuðningur við bílaleigur kæmi með þessum hætti niður á þeim sem selja bíla á rekstrarleigu. Og það er skiljanlegt út af fyrir sig.
En hin nýja reglugerð fjármálaráðherra er þrátt fyrir þetta afar undarleg. Það hljómar að minnsta kosti sérkennilega að maður geti ekki gengið inn á bílaleigu og leigt sér bíl ef systir hans hefur leigt sér þar bíl mánuði áður. En einhvern veginn þurfti að taka á þeim misnotkunarmöguleikum sem ívilnunin til bílaleignanna opnaði. Það er líka með þetta mál eins og jafnan, að skattaundanþágur opna á misnotkunarmöguleika og skekkja alla stöðu manna. Skattaundanþágur kalla á flóknar reglur til koma í veg fyrir að aðrir geti hagnýtt sér þær en til er ætlast. Þær kallar á mikið eftirlit og kostnaðarsamt. Og öðru hverju koma furðureglugerðir eins og fjármálaráðherra gaf út á dögunum.
Meðal annars vegna þessa ættu ráðamenn að standa gegn öllum óskum hagsmunahópanna um nýjar undanþágur. Það ætti að afnema undanþágur frá sköttum en lækka skatthlutfallið þar á móti. Með því fengist einfaldara skattkerfi sem erfiðara yrði að misnota. Og í slíku kerfi þyrfti færri reglur og minna eftirlit.