Það er þá búið að dæma Alistair Scott. Fyrir viku dæmdi breskur dómstóll hann til að vinna 200 klukkustundir í svo kallaðri samfélagsþjónustu og til að greiða fórnarlambi sínu bætur. Og hvað hafði Scott gert af sér? Hann hafði lent í rifrildi. Því miður fyrir herra Scott þá var andstæðingur hans í rifrildinu múslimi, Mohammad Hudaib að nafni, og í pólitískum rétttrúnaði nútímans er eins gott að gá að sér þegar svo er komið. Mennirnir eru nágrannar en milli þeirra sauð upp úr þegar Hudaib lét þess getið að sér fyndist 11. september 2001 hafa verið „glorious day“ og róttæklingurinn Osama bin Laden „a great man“. Alastair Scott var ekki sérstaklega sammála nágranna sínum um þetta og svaraði fullum hálsi. Ef marka má breska fjölmiðla urðu mennirnir báðir víst töluvert æstir og drógu ekki af sér. Og þegar nútímaleg og fagleg yfirvöld komust í málið þá sáu þau strax að hér hafði verið framinn alvarlegur glæpur. Alastair Scott var ákærður fyrir að áreita Mohammad Hudaib, og ekki bara það, hann var einnig ákærður fyrir nýuppfundinn glæp, „religiously aggravated threatening behaviour.“
Og Muhammad Hudaib, þessi sem fannst morðárásirnar gleðilegar og höfuðpaurinn stórmenni, hvað varð um hann? Hann hefur þá kannski verið ákærður líka?
Einmitt! Nei hann var vitaskuld ekki ákærður. Hann fær greiddar bætur. Maðurinn sem leyfði sér að andæfa honum, og mun vissulega hafa gert það með stærri orðum en nauðsynlegt var, hann mun hins vegar verja 200 klukkustundum í „samfélagsþjónustu“ og greiða bætur til Hudaibs fyrir utan allan sakarkostnað, lögfræðikostnað og þar fram eftir götum. Lögreglan, ákæruvaldið og dómskerfið geta því andað rólega og sagt „þarna sjáiði, engir rasistar hér á bæ!“.
Kannski þykir einhverjum þetta eitt dæmið enn um klikkun nútímans. Kannski já, en kannski þykir mönnum þetta bara sjálfsagt. En er þetta ekki að gerast um allan hinn vestræna heim? Hvað gerði ekki Hæstiréttur Íslands á dögunum? Dæmdi hann ekki sjómann nokkurn í fjársekt og fangelsi til vara fyrir að láta í ljós þá skoðun að Afríkunegrar væru latari en Íslendingar? Auðvitað undarleg skoðun hjá sjómanninum en það er annað mál. Búum til dæmi. Segjum að til Íslands komi erlendur maður, búi hér um skeið og fari svo í viðtal þar sem hann er spurður hvernig honum lítist nú á Ísland. Maðurinn svarar því til að sér þyki Íslendingar fordómafullir og fáfróðir. Dettur nokkrum manni í hug að ríkissaksóknari bregði hart við og ákæri manninn? Og Hæstiréttur dæmi hann í fjársektir og fangelsi til vara?
Nei auðvitað yrði það ekki gert. Því tilgerðarlegar postulínsreglur nútímans virka bara í aðra áttina. Ef nýbúi myndi ausa svívirðingum yfir Íslending yrði sjálfsagt ekkert gert. En ef Íslendingurinn segði „sömuleiðis“, ja þá…