Fimmtudagur 31. október 2002

304. tbl. 6. árg.

Tekjuskattar einstaklinga hafa verið mjög til umræðu síðustu dagana enda hafa Íslendingar líklega aldrei áður greitt jafn hátt hlutfall tekna sinna í tekjuskatt. Kristján Már Unnarsson fréttamaður á Stöð 2 hefur gert þessum málum prýðileg skil í fréttatímum stöðvarinnar. Eins og komið hefur fram í þessum fréttum er helsta ástæðan fyrir þessari óheillaþróun mikil hækkun launa á nokkrum undanförnum árum. Skattkerfið er þannig gert að enginn græðir jafnmikið á launahækkunum og hið opinbera, ríki og sveitarfélög.

Engu að síður kemur þessi þróun sjálfsagt ýmsum í opna skjöldu því tekjuskattsprósentan hefur verið lækkuð úr 41,93% þegar hún var hæst fyrir nokkrum árum í 38,78% nú. Að auki geta menn dregið 4 til 8% launa frá skattstofni með greiðslum í lífeyrissjóð. Á móti kemur að svonefndur hátekjuskattur hefur verið lagður á tekjur hærri en þingfararkaup en menn vilja oft gleyma því að þessi skattur er frá árinu 1994. Hann var því lagður á í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins.

Það kemur ekki síður á óvart að nú tala ýmsir vinstri menn eins og þeir hafi alltaf viljað lækka skatta. Össur Skarphéðinsson gagnrýndi hins vegar þessa lækkun á tekjuskattsprósentunni harðlega á sínum tíma og taldi hana vera meginástæðuna fyrir því að hér tifaði „tímasprengja“ í efnahagslífinu. Hann ítrekaði þessa andstöðu sína við skattalækkanir margsinnis í viðtölum við ýmsa fjölmiðla m.a. Morgunblaðið í apríl 1999 og í viðtali á Stöð 2 í sama mánuði sagði hann það hafa verið „mistök hjá ríkisstjórninni að lækka skatta á einstaklinga yfir línuna“.

Megin röksemdin sem notuð var gegn lækkun skatta á einstaklinga var að hér væri of mikil „þensla“ og fólk myndi bara eyða skattalækkunum í vitleysu. Margir stjórnarliðar með fjármálaráðherrann í fararbroddi trúðu þessu rugli og því hafa ekki verið teknar nýjar ákvarðanir um lækkun á tekjuskattinum í nokkur ár. Í viðtali við Morgunblaðið 13. ágúst 2000 sagði skattamálaráðherrann m.a. „Ég held hins vegar að almenn skattalækkun við núverandi aðstæður væri ekki skynsamleg.“ Og hann bætti svo við síðar: „Það teldi ég ekki ráðlegt á meðan uppsveifla er jafnmikil í efnahagslífinu og nú er.“ Ráðherrann taldi jafnvel á tímabili að betra væri fyrir ríkið að safna í sjóð í stað þess að lækka skattana og sagði í sama viðtali að til greina kæmi að ríkissjóður notaði rekstrarafgang til „uppbyggingar arðgefandi eigna í útlöndum“. Til allrar hamingju fyrir skattgreiðendur varð ráðherranum ekki að þeirri ósk sinni á þessum tíma að fá að spila með skattfé á erlendum hlutabréfamörkuðum því í kjölfarið hafa fylgt miklar lækkanir á helstu mörkuðum og hætt við að lítið stæði eftir af hinum „arðgefandi eignum í útlöndum“.

En í stað þess að lækka skatta vegna hættu á eyðslusemi hins almenna borgara fóru þingmenn sjálfir á útgjaldafyllirí og eyddu því svigrúmi sem var til að lækka tekjuskattinn. Meðal annars var byrjað í miðri „þenslunni“ að greiða út hæstu félagslegar bætur í heimi til hátekjufólks í svonefndu fæðingarorlofi.