FRAMSOKNARMERKIFastir liðir eins og venjulega. Nú eru framsóknarmenn í Reykjavík komnir í hár saman, allir nema Alfreð sem að vísu er alfreðsmaður en ekki framsóknarmaður. Það á að fara að stilla upp lista og þá er allt orðið vitlaust. Ef marka má ýmsa forystumenn flokksins í Reykjavík þá er stendur einn félagi þeirra, Guðjón Ólafur Jónsson fyrrverandi fulltrúi ríkissaksóknara, nú fyrir miklum óeirðum sem að sögn hafa þann tilgang helstan að héraðsdómslögmaður einn, Guðjón Ólafur Jónsson að nafni, fái gott sæti á framboðslista í öðru kjördæma höfuðborgarinnar. Munu ýmis meðul notuð í þessari baráttu og virðast sumar aðferðirnar á mörkum veruleika og fáránleika.
Þetta er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem framsæknir framsóknarmenn beita sérkennilegum aðferðum. Nú þarf meðal annars að velja frambjóðanda í það sæti sem Finnur Ingólfsson viðskiptafræðingur skildi eftir sig þegar hann sótti um embætti nokkurt sem Finnur Ingólfsson viðskiptaráðherra hafði auglýst laust til umsóknar. Áðurnefndur Finnur, það er að segja sá Finnur sem fyrr var nefndur, hafði hins vegar hirt þingsæti þetta af Guðmundi G. Þórarinssyni og beitt til þess aðferðum sem Guðmundur sagði að líktust þeim sem „mafíósar í Chicago“ notuðu. Guðmundur hafði fyrir sitt leyti fjórum árum áður náð þingsætinu af Haraldi Ólafssyni mannfræðingi með aðferðum sem Guðmundur hefur því miður ekki haft tök á að lýsa eins ýtarlega enn sem komið er, en hann mun vitaskuld gera það um leið og hann hefur lokið við að halda upp á 35, 40, 45 og 50 ára afmæli einvígis Fischers og Spasskys.
Vigdís Hauksdóttir, sem mikið hefur starfað innan Framsóknarflokksins og verið varaþingmaður hans, ritaði grein í Morgunblaðið og var heldur lítið sátt við starfsaðferðir áðurnefnds Guðjóns Ólafs Jónssonar. Er óhætt að mæla með greininni fyrir alla áhugamenn um mannfræðirannsóknir. Voru skammir hennar svo miklar að sennilega eiga framsóknarmenn ekki annað ráð en að fá formann kjördæmisráðs Framsóknarflokksins í kjördæminu, Guðjón Ólaf Jónsson lögfræðing, til að bera klæði á vopnin. Er hann einmitt rétti maðurinn til þess enda kunnur mannasættir. Ef Guðjón Ólafur reynist hins vegar vant við látinn væri reynandi að leita til þess forystumanns Framsóknarflokksins sem helst hefur tjáð sig um þetta mál í fjölmiðlum, Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra. Hefur fjölmiðlamönnum eðlilega þótt skynsamlegt að fá hlutlaust álit hans á málinu enda vilja þeir ekki leita til annarra en þeirra sem geta litið á deilurnar úr fjarlægð. Hafa fjölmiðlamenn því vitaskuld forðast að snúa sér til mágs áðurnefndrar Vigdísar, Guðna Ágústssonar fyrrverandi mjólkureftirlitsmanns á Brúnastöðum í Hraungerðishreppi.
Það er á andstæðingum Guðjóns Ólafs að skilja að hann vilji endilega hindra að framboðslisti Framsóknarflokksins verði valinn í prófkjöri en leggi þess í stað áherslu á að uppstillingarnefnd taki þær ákvarðnir sem öllu skipti. Ekki er gott að segja hvað Guðjón Ólafur hefur á móti prófkjörum en hann hefur að minnsta kosti reynslu af þeim vettvangi. Hann bauð sig einmitt fram í furðuprófkjörinu sem haldið var til að velja á R-listann fyrir þarseinustu borgarstjórnarkosningar en fékk minni stuðning en vænta mátti. Þó það hafi vitaskuld verið vonbrigði fyrir alla þá sem bera hag Framsóknarflokksins fyrir brjósti þá er það auðvitað að vissu leyti gaman að minnast þess að maðurinn sem nú er sagður standa fyrir miklum slagsmálum í eigin flokki til þess að forðast prófkjör, hann varð á sínum tíma með öftustu mönnum í prófkjöri – undir slagorðinu „Guðjón Ólafur – til í slaginn“.