Þriðjudagur 29. október 2002

302. tbl. 6. árg.

Vegna þess hvernig skattkerfið er úr garði gert og vegna mikilla launahækkana á undanförnum árum hefur hlutur hins opinbera í tekjum einstaklinga vaxið úr 17,4% árið 1990 og í um 24% nú. Þetta er sumsé meðalhlutfallið sem ríki og sveitarfélög taka af tekjum landsmanna. Sumir greiða að sjálfsögðu hærra og þeir sem hafa ekki nema 70 þúsund í tekjur á mánuði greiða ekki neitt. Besta leiðin til að stöðva þessa óheillaþróun er að lækka tekjuskattsprósentuna sem er nú allt að 45,78% þegar hátekjuskattur er talinn með.

Mikil skuldsetning heimilanna hefur verið nokkuð til umræðu að undanförnu. Á vegum ríkisins eru greiddar svonefndar vaxtabætur sem eru þeim eiginleikum gæddar að menn njóta þeirra ekki nema skulda nógu fjandi mikið! Með öðrum orðum er ekki víst að vaxtabyrði manna aukist við að steypa sér í auknar skuldir. Menn fá bara viðbótarvextina endurgreidda. Á sama hátt letur vaxtabótakerfið menn til að greiða niður skuldir sínar. Vegna þess að kerfið verðlaunar mikla skuldsetningu dettur ekki nokkrum manni með réttu ráði í hug að taka sig á og spara og losa sig við hluta skuldanna. Með því að hætta þessari hvatningu til skuldasöfnunar mætti lækka almennu tekjuskattsprósentuna úr 38,78 í 36,5%.

Á árinu 2000 ákvað Alþingi að hátekjufólk þyrfti hærri velferðarbætur til að hugsa um börnin sín en láglaunafólk. Því fá foreldrar sem hafa að jafnaði hálfa milljón króna í tekjur hvort á mánuði alls 3,6 milljónir króna frá Tryggingastofnun ríkisins í fæðingarorlofi. Hjón með 120 þúsund hvort tekjur fá hins vegar 864 þúsund krónur í allt frá Tryggingastofnun til að sjá um sitt barn í fæðingarorlofi. Þessi ákvörðun Alþingis var kynnt sem „jöfnun réttar til fæðingarorlofs“ og naut mikils stuðnings sjálfskipaðra talsmanna láglaunafólksins, hvort sem var á glæsikontórum verkalýðsrekenda eða á Alþingi. Með því hins vegar að allir fengju sömu upphæð og greidd var áður en fæðingarorlofið var „jafnað“ á þennan hátt mætti áfram lækka skatthlutfallið í 35,2%. En það er sama hlutfall og var árið 1988 þegar núverandi skattkerfi var komið á koppinn.

Að lokum má svo nefna að lagður er sérstakur skattur á menn sem starfa í landi svo niðurgreiða megi laun sjómanna með svonefndum sjómannaafslætti. Ef þessi skattur væri ekki lagður á landkrabba lækkaði skatturinn svo í um 34%.