Hvaða postulínsþjóðfélag er þetta að verða? Fjölmiðlar landsins höfðu varla tíma til að segja frá og sýna myndir frá einum stærsta eldsvoða síðustu áratuga, svo mjög lá þeim á að fjalla um það að engin „áfallahjálp“ hafi verið í boði þegar íbúar hoppuðu út úr brennandi húsum sínum. Eiginlega hefur fátt annað komist að en þetta atriði. Það var ekki boðið upp á „áfallahjálp“ strax um nóttina. Nú er hreint engin ástæða til að gera lítið úr því áfalli sem fólk verður fyrir sem á nokkrum andartökum missir allt sitt innbú, persónulega muni og svo framvegis, eiginlega allt frá sokkum og uppúr. Á eftir því að missa ástvini sína eða heilsu er það sennilega það tjón sem fæstir vildu bíða, já og kannski á eftir mannorðinu líka. Auðvitað er enginn á móti því að slíku fólki sé veitt lið, það er beinlínis eðlilegt að það sé gert. Auðvitað hefði verið betra að enginn hefði þurft að standa úti á götu á nærfötunum; auðvitað hefði verið betra ef einhver hefði strax verið kominn með teppi og heitt súkkulaði með rjóma. En það sem sagt var ekki gert, slökkviliðið hafði allan hugann við það að hindra það að eldurinn breiddist út og annað mætti afgangi.
En þó það sé afleitt að þurfa að segja það, þá var þetta „áfallahjálparleysi“ ekki aðalatriði þessa máls og verðskuldaði alls ekki endalaus viðtöl og umfjöllun dag eftir dag. En eins og venjulega þá finna fréttamenn sér alltaf einhver aukaatriði til að einblína á. Það voru ekki liðnar fjórar mínútur frá því tilkynnt var um eld þegar slökkviliðið var mætt á staðinn og tekið að berjast við eldinn. Eldsmaturinn var gríðarlegur, hús stóðu þétt og við þetta bættist norðanstrekkingur. Engu að síður tókst slökkviliðsmönnum að hindra það að eldurinn breiddist út. Einhver hefði nú haldið að jafnvel væri ástæða til að fara nokkrum viðurkenningarorðum um störf slökkviliðsins en þá er því nú ekki að heilsa. Æsingur postulínsþjóðfélagsins er slíkur að fjöldi manns álítur að slökkviliðið hafi hreinlega gert í buxurnar. Það var sko engin áfallahjálp í boði.
Og talandi um fréttamenn og postulínsþjóðfélag. Hver var næsta frétt á eftir allri umfjölluninni um áfallahjálparleysið? Jú: ein flugvél Flugleiða hafði skyndilega tekið krappa dýfu og margir farþegar höfðu orðið afar hræddir um stund. En leiðinlegt. Það hafði orðið lítilsháttar bilun í tæki og sjálfstýribúnaður brugðist svona harkalega við en flugstjórinn þá tekið hann úr sambandi og stýrt vélinni sjálfur og rétt hana af. Auðvitað verður mönnum hverft við þegar vél lækkar skyndilega flugið verulega og áberandi. En stórfrétt í fjölmiðlum? Fréttamenn sauma að upplýsingafulltrúa Flugleiða til að fá hann til að segja að farþegar hafi orðið skelfingu lostnir. Er nema von að menn spyrji: Hvað næst?