Miðvikudagur 23. október 2002

296. tbl. 6. árg.

Þ

SI_A_FJARLOGUMað er óhætt að segja að ýmsir sem gera út á vasa skattgreiðenda, með ríkissjóð sem millilið, hafi gert það gott á undanförnum árum. Fyrir nokkrum árum var það gangrýnt hér að Samtök iðnaðarins fengju árlega um 100 milljónir króna úr ríkissjóði. Fjármálaráðherra hefur bersýnilega tekið þessa gagnrýni til athugunar – á sinn hátt – og samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi fá Samtök iðnaðarins 208 milljónir króna úr ríkissjóði á næsta ári.

Nú er rétt að taka það fram áður en lengra er haldið að ýmis önnur samtök fá rekstrarfé úr ríkissjóði. Bændasamtökin og svonefnd þjóðkirkja eru til dæmis í þeim hópi. Styrkir til þeirra eru ekki síður einkennilegir en til Samtaka iðnaðarins. Almennt má segja að áhugamenn um iðnað, landbúnað, messuhald eða hvaðeina eigi að sjá um að fjármagna sinn félagsskap sjálfir en halda skattgreiðendum utan við það mál.<!––> <!––> <!––> <!––> <!––> <!––>

En Samtök iðnaðarins eru hér til umfjöllunar vegna þess að í fyrradag kvaddi framkvæmdastjóri þeirra sér hljóðs í fréttum Ríkisútvarpsins. Sem oft áður hafði hann tillögur um aukin ríkisumsvif, skömmtunarkerfi og höft á takteinum. Hann hefur sem kunnugt er varið ómældum tíma og fjármunum (skattgreiðenda) í sannfæra Íslendinga um að þeir séu á vonarvöl án þess að afhenda Evrópusambandinu fullveldi sitt og frelsi. Hann hefur einnig lagt sig fram um að stöðva innflutning á erlendum iðnvarningi til landsins enda er honum eins og fleiri „Evrópusinnum“ afar umhugað um að Íslendingar fái notið ódýrra matvæla.

Í fyrrkvöld voru það aukin ríkisútgjöld og nýtt millifærslukerfi sem framkvæmdastjórinn færði rök fyrir í fréttum Ríkisútvarpsins. Þannig háttar nefnilega til að það er dýrara að flytja varning frá Sundahöfn til Kópaskers en frá Sundahöfn og inn í Skeifu. Þetta er rakið ójafnrétti að mati Samtaka iðnaðarins og því vilja þau að ríkið niðurgreiði framvægis flutninga sem eru lengri en hinir styttri. Þannig verði jafndýrt að aka með skrúfupakka úr Sundahöfn upp í Mosfellssveit hvort sem menn byrja á því að fara Suðurlandsveg eða Vesturlandsveg. Sá sem velur þjóðveg 1 réttsælis og er 20 mínútur á leiðinni verður bara skattlagður til að styrkja hinn sem fer þjóðveginn rangsælis og er 20 tíma á leiðinni. Í draumaveröld Samtaka iðnaðarins verða allar fjarlægðir jafnmiklar í krónum talið, 12 kílómetrar verða engu styttri en 1.200 kílómetrar.

Næsta skref í baráttu Samtaka iðnaðarins hlýtur að vera að þeir sem þurfa að fara úr Borgartúni á fund í Brussel þurfi ekki að þola það ójafnrétti að greiða meira fyrir fargjaldið en maður sem fer með leigubíl á ráðstefnu í Rúgbrauðsgerðinni.