Þriðjudagur 15. október 2002

288. tbl. 6. árg.

Áfundi sem haldinn var austur í Flóa í apríl 1999, en þá var skammt til þingkosninga, sagði Össur Skarphéðinsson að þá væri í fyrsta sinn möguleiki á því að kona, og það vinstri sinnuð kona, Margrét Frímannsdóttir, gæti orðið forsætisráðherra Íslands. Þetta þótti ýmsum sérkennilegt því fjórum árum áður, eða skömmu fyrir kosningarnar 1995, hafði Þjóðvaki Jóhönnu Sigurðardóttur sópað til sín fylgi samkvæmt skoðanakönnunum. Það gat því allt eins gerst að Jóhanna yrði forsætisráðherra og þegar fyrstu tölur úr Reykjanesi bárust var engu líkara en af því yrði. Því miður fyrir Jóhönnu gáfu þær tölur ekki rétta mynd af „vilja þjóðarinnar“ – sem henni er svo gjarnt að nefna máli sínu til stuðnings – og þegar talningu lauk um nóttina var Þjóðvaki orðinn að enn einum bráðræðisflokki vinstri manna.

Hvers vegna Össur kaus að gera minna úr þætti Jóhönnu í stjórnmálasögunni er ekki gott að segja. Nema hann hafði þá nýlega látið Jóhönnu gjörsigra sig í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík sem var þá öllum opið. Mátti minnstu muna að Össur tapaði einnig fyrir annarri Þjóðvakakonu, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur og lenti í varasæti á þingi sem er venjulega frátekið fyrir Mörð Árnason. Hefði þá skemmtileg hefð verið rofin.

Þessi sögufölsun Össurar rifjast upp nú þegar hann, Ingibjörg Sólrún Gísl. og Bryndís Hlöðversdóttir hafa bundist samtökum um að fella Jóhönnu úr efsta sæti Samfylkingarinnar í Reykjavík í prófkjöri fylkingarinnar í næsta mánuði. Ef marka má fréttir verður prófkjörið ekki mikið opnara en bókhald Samfylkingarinnar. Að vísu mega allir flokksbundnir Samfylkingarmenn taka þátt í prófkjörinu en bókhaldið er aðeins opið örfáum í innsta hring. Lokað prófkjör er Jóhönnu mjög í óhag enda sýndi það sig í prófkjörinu fyrir fjórum árum að opið prófkjör er henni afar hagfellt.