Mánudagur 14. október 2002

287. tbl. 6. árg.

Um helgina var sagt frá því að ellefu hygðust bjóða sig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar í því sem kallast suðvesturkjördæmi og þrettán aðrir í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur. Þetta eru út af fyrir sig merkileg tíðindi, en blikna þó í samanburði við Tíðindi helgarinnar – með stóru Téi. Þau snerta einnig prófkjör Samfylkingarinnar, en með öðrum og veigameiri hætti. Um helgina gerðist það nefnilega – og nú skulu menn halda sér – að sjálf Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarfulltrúi R-listans, sendi frá sér sérstaka yfirlýsingu þar sem hún skýrði frá þeirri ákvörðun sinni að gefa ekki kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík, en eins og allir vita hefur ekki verið um annað rætt síðustu vikur og mánuði en það, hvort sjálf Steinunn Valdís léti undan ógurlegum þrýstingi og léti til leiðast að setjast á þing. Vonbrigði margra eru mikil vegna óvæntrar ákvörðunar sjálfrar Steinunnar Valdísar, en þeir geta þó huggað sig við að hún hyggst áfram leyfa Reykvíkingum að njóta krafta sinna í borgarstjórn.

En þó fréttir af þeim minni spámönnum Samfylkingarinnar sem létu undan þrýstingnum og gáfu kost á sér virðist ómerkilegar miðað við tímamótayfirlýsingu sjálfrar Steinunnar Valdísar, þá er ekki ástæða fyrir Samfylkingarmenn að örvænta. Í hópi frambjóðenda er margt mætra fulltrúa alls kyns sjónarmiða sem lítið erindi eiga inn í sali Alþingis og þess vegna má gera ráð fyrir að fast verði tekist á og að málefnin muni ráða eins og ævinlega. Sérstaka ánægju vekur að Mörður Árnason gefur enn einu sinni kost á sér til áframhaldandi setu sem varamaður á þingi, en nauðsynlegt er að stöðugleiki ríki í röðum varamanna. Það er ekki síður mikilvægt að festa sé í framboðsmálum og hún er prýðilega tryggð með popparanum Jakobi Frímanni Magnússyni. Hann er ekki lakari frambjóðandi en sá mæti maður Helgi Hjörvar, sem fer fram fyrir hönd þeirra sem álíta eðlilegast að sýna í verki að þeir séu orðnir þreyttir á háum sköttum hér á landi. Ekki er ástæða til að horfa framhjá Einari Karli Haraldssyni, framkvæmdastjóra Alþýðubandalagsins á blómaskeiði þess. Hann hefur eftir að Alþýðubandalagið hætti að fóstra hann orðið að sérstökum markaðsvísundi og leiðbeinir fyrirtækjum hvernig þau geti best nýtt sér markaðsöflin ægilegu. Það yrði fengur að slíkum manni á Alþingi, ekki síst til að útskýra hvers vegna nauðsynlegt er að skattar verði hækkaðir og ríkisrekið velferðarkerfi þenjist út.

Allir eru þessir menn í framboði í Reykjavík – og fleiri, sem hér verða ekki nefndir. Á Reykjanesi hefur Samfylkingin ekki upp á að bjóða sama einvalalið og í Reykjavík. Þó vekur þar athygli einn frambjóðandi – sem að vísu skýrði frá framboði sínu í sumar – en það er Ásgeir Friðgeirsson. Ástæða þess að framboð hans er athyglisvert er sú, að hann er einn af þeim fjölmörgu „hlutlausu“ álitsgjöfum sem fjölmiðlar hafa í gegnum tíðina kallað á þegar þurft hefur að greina ástand og horfur í þjóðmálum. En í þessu endurspeglast einn vandinn við meintar tilraunir fjölmiðla við að vera hlutlausir. Enginn maður er hlutlaus, en þegar fjölmiðlar og viðmælendur láta eins og viðmælendur séu það, er ekki verið að gera neitt annað en blekkja almenning.