Hvers vegna skyldu menn leita flókinna lausna á einföldum vandamálum? Oft er það auðvitað vegna þess að menn vita ekki betur, þekkja ekki einfalda leið til að leysa einföld mál. Stundum er ástæðan þó sú að menn vilja hreinlega ekki fá lausn vandans sem slíks en vilja þó komast hjá honum, eða vilja tryggja að sumir komist hjá honum. Dæmi um þetta virðist vera sjónarmið Samtaka ferðaþjónustunnar en í fréttabréfi samtakanna er því lýst hvernig samtökin telja að svonefnt áfengisgjald, sem sagt er að sé það hæsta í víðri veröld, koma illa við félagsmenn. Samtökin gefa ekkert út á afleiðingar gjaldsins fyrir neytendur, nú eða fyrir veitingamenn sem ekki hafa svokallað fullt vínveitingaleyfi. A.m.k. er ekki vikið að þeim í fréttabréfinu. Hins vegar er sagt frá hugmyndum samtakanna um hvernig leysa megi vandann fyrir suma veitingamenn, þ.e. þá veitingamenn sem hafa fullt vínveitingaleyfi.
Alveg hreint ótrúlegar pælingar virðast hafa farið fram á vettvangi veitingamanna og þeir svo farið á fund fjármálaráðherra með þá niðurstöðu og ráðleggingar að best væri að gefa sumum veitingamönnum 50% afslátt af áfengisgjaldinu. Þeir hafa komist að því að auk þess að vera afar hagkvæmt fjárhagslega fyrir þessa útvöldu væri slíkur afsláttur besta leiðin í baráttunni gegn skattsvikum, eða eins og þeir segja: „Veitingamenn hafa í langan tíma bent á að eina ráðið varðandi skattsvikavandann er að hafa einhvers konar gulrætur þar sem skattaeftirlitið dugar ekki til. Ef afsláttur af áfengisgjaldi megnar ekki að draga svarta atvinnustarfsemi upp á yfirborðið þá njóta þó ábyrgu veitingastaðirnir þess sem í boði er og það jafnar samkeppnisstöðu þeirra.“
Nú er áfengisgjaldið tiltölulega einfalt vandamál. Það er vandamál fyrir veitingamenn sem selja minna af víni en ef ekkert væri gjaldið. Það er vandamál fyrir neytendur sem annað hvort geta ekki leyft sér að kaupa áfengi eða finna meira fyrir því fjárhagslega en ef ekkert væri gjaldið. Það er meira að segja vandamál fyrir ríkissjóð því eins og veitingamenn benda á eru gífurleg skattsvik í kringum þeirra starfsemi og ríkið verður án efa af tekjum vegna sölu á áfengi.
En sem betur fer er til lausn á þessu einfalda vandamáli og jafnvel lausn sem er ekki jafn flókin og sú er veitingamenn stinga upp á; afnám, eða a.m.k. lækkun, áfengisgjaldsins. Sú lausn myndi heldur ekki fela í sér brot á almennri jafnræðisreglu sem í háa herrans tíð hefur verið talin mikilvæg, sérstaklega í skattamálum.