Þriðjudagur 8. október 2002

281. tbl. 6. árg.

Það eru þessir stjórnmálamenn og matarverðið. Nú keppast þeir við að flytja þingsályktanir um málið og biðja daglega um rannsóknir, úttektir, skýrslur og skoðanir á því hvers vegna matur er dýrari hér en víða annars staðar. Samfylkingin vill tafarlausa rannsókn á málinu og er það helsta þingmál þess flokks að grafast fyrir um ástæður sem öllum eru kunnar. Halldór Blöndal forseti Alþingis varpaði í síðustu viku fram þeirri kenningu að hátt matarverð hér á landi væri Samkeppnisstofun að kenna. Samkeppnisstofnun hefur vissulega gert ógagn með því að flækjast fyrir frjálsum viðskiptum í ýmsum greinum og neytendur hafa þurft að bera stóraukinn kostnað af rekstri hennar á undanförnum árum. En hún er ekki helsti dólgurinn í þessu máli.

Er enginn þarna í þinginu sem þorir að segja upphátt hver ástæðan fyrir háu matarverði er? Það veit hvert mannsbarn að það er hátt vegna þess að landbúnaður er fjötrum ríkisafskipta og innflutningur er ýmist bannaður eða tolllagður út af markaðnum. Þessi höft eru ákveðin á sama þingi og þeir sitja sem spyrja eins og kjánar um málið. Enda kannski þægilegra að spyrja að því en svara þegar maður ber sjálfur sök á því hvernig komið er.