Ínýlegri grein á vef Cato-stofnunarinnar í Bandaríkjunum er fjallað um rangtúlkanir samtaka svo kallaðra umhverfisverndarsinna á tölum um loftmengun. Eins og þekkt er halda slík samtök jafnan fram þeim sjónarmiðum að allt sé að fara á verri veg í umhverfismálum og að hvergi hafi náðst nokkur árangur. Staðreyndin er þó allt önnur og flest hefur færst til betri vegar á undanförnum árum og áratugum í þessum málaflokki, ekki síst þegar litið er til mengunnar. Loftmengun hefur minnkað mjög í Bandaríkjunum á síðustu tveimur áratugum, en vegna rangra „upplýsinga“ frá ýmsum umhverfissamtökum halda flestir Bandaríkjamenn að loftgæði fari minnkandi! Í greininni segir að í San Bernardino í Kaliforníu, sem sé það svæði í landinu þar sem loftmengun er mest, hafi óson-mengun farið yfir heilbrigðismörk í 130 daga á ári á níunda áratugnum. Nú sé svo komið að mengunin á þessu svæði fari yfir mörkin 15-30 daga á ári og að dögunum fari fækkandi ár frá ári. Sambærilegur árangur hafi náðst um öll Bandaríkin.
Af meira en 1.000 stöðum í Bandaríkjunum þar sem loftmengun er mæld uppfylltu aðeins 46% heilbrigðisviðmiðanir í upphafi níunda áratugarins. Nú uppfylla 86% mældu staðanna þessar viðmiðanir. Á sama tíma fjölgaði bílum í Bandaríkjunum um 75%. Það er umhugsunarvert að loftgæði skuli batna svo mjög á sama tíma þessi mikla fjölgun bíla á sér stað. Ekki síst þegar allur áróðurinn gegn bílum er hafður í huga. Víða um lönd, þar á meðal hér á landi, myndast illa upplýstir stjórnmálamenn við að halda „bíllausan dag“ vegna þess að bíllinn sé slík óværa að berjast verði gegn honum með tiltækum ráðum. Ein af afleiðingum þessa áróðurs gegn bílum hér á landi er að erfiðlega gengur að lækka skatta á þá, þó ákveðin og jákvæð skref hafi verið stigin fyrir nokkrum árum. Staðreyndin er nefnilega sú að nýir bílar menga mun minna en gamlir bílar og í fyrrnefndri grein segir að útblástur þeirra minnki að meðaltali um 10% á ári.
Þeir sem segjast vilja vernda umhverfið ættu því að beita sér gegn háum bílasköttum en ekki gegn bílum. Sennilega verður slík stefna þó seint ofan á hjá þeim samtökum sem hæst láta, enda er vafasamt að umhverfisvernd sé í raun það sem fyrir þeim vakir. Líklegra er að þau séu knúin áfram af óvild í garð vestræns markaðsskipulags og þeirrar almennu velmegunar borgaranna sem það hefur alið af sér.