Fimmtudagur 10. október 2002

283. tbl. 6. árg.

Þeir sem hafa þurft að fá póst frá Bandaríkjunum hafa margir lent í því að þurfa að bíða ótrúlega lengi eftir hin stjórnarskrárvarða ríkisstofnun, US Mail, gerði það sem af henni er ætlast. Það er þess vegna lítil gleðifrétt þegar menn lesa nú að vegna verkfallsaðgerða hafnarverkamanna á vesturströnd Bandaríkjanna munu verða óvenjulegar tafir á sjóflutningum næstu mánuði. Og þetta er þrátt fyrir að forseti Bandaríkjanna hafi nýtt sér heimild í sérstökum lögum, Taft-Hartley lögunum, og stöðvað aðgerðirnar. Sú staða sem forsetinn – og aðrir Bandaríkjamenn auðvitað – stóð frammi fyrir, var að milljarða dala virði af varningi lá undir skemmdum vegna þess að stéttarfélag um 10.000 hafnarverkamanna ákvað að félagarnir skyldu ekki sinna þeirri vinnu sem þeir höfðu ráðið sig til.

Verkföll þykja einhverra hluta vegna sjálfsagður „réttur“ verkalýðsfélaga og Íslendingar eins og aðrar þjóðir hafa vegna þessa furðulega fyrirbæris iðulega lent í miklum vandræðum og orðið fyrir efnahagslegum skakkaföllum þeirra vegna, fyrir utan óþægindin og öryggisleysið sem þau geta valdið. Þó halda einhverjir að verkalýðsfélög eigi þennan rétt. Að þeim beri réttur til að segja allt í einu: Nú verður þetta verk ekki unnið þar til okkur hentar að leyfa það á ný. Það sem er einkennilegt við þennan „rétt“ er ekki að starfsmenn geti lagt niður vinnu til að mótmæla launakjörum eða öðru, það er sjálfsagt og eðlilegt að hver maður ákveði sjálfur hvort hann vill vinna tiltekið starf eða ekki á þeim kjörum sem um getur samist. Það sem er minna sjálfsagt er að hann – að ekki sé talað um verkalýðsrekendur fyrir hans hönd – geti ákveðið að fyrst hann sættir sig ekki við kjörin þá megi enginn annar sinna starfi hans í staðinn. Það að verkalýðsfélög geti einokað ákveðin störf eða atvinnumarkaði og jafnvel beitt ofbeldi til að verja þessa einokun sína er ekki réttlæti, heldur verulegt ranglæti.

Þetta fyrirkomulag er ranglátt gagnvart atvinnurekendum, en ekki síður gagnvart öðrum launamönnum sem hugsanlega vilja komast í störfin fyrir þau laun sem í boði eru. Í krafti einokunarinnar geta verkalýðsfélög þvingað laun upp fyrir markaðsverð, fækkað atvinnutækifærum og haldið vinnufúsum mönnum atvinnulausum. Ranglætið verður sláandi þegar lítill hópur starfsmanna tekur höndum saman um að nýta sér lögvarða einokunaraðstöðu sína til að lama allt þjóðfélagið og neyða viðsemjendur þannig til að samþykkja kröfur sem ekki væri hægt að ná í frjálsum samningum. Þessu lentu Bandaríkjamenn í nú og þessu hafa Íslendingar kynnst. Þegar þannig stendur á er skiljanlegt að yfirvöld grípi inn í og stöðvi vinnudeiluna. Heppilegra væri þó ef leikreglunum væri breytt þannig að fullt samningafrelsi fengi að ríkja á vinnumarkaði og að starfsmenn og vinnuveitendur semdu um sín mál án sérstakra laga um „rétt“ til að beita ofbeldi og einokun.