Matarverð kom lítillega til umfjöllunar í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi þar sem áttust við leiðtogar stjórnmálaflokkanna og fulltrúi fjölskyldu Sverris Hermannssonar. Össur Skarphéðinsson hélt því fram að aðild Íslands að Evrópusambandinu myndi leiða til lægra matarverðs hér á landi og því væri aðild góður kostur. Svipuð sjónarmið komu fram í hugvekju utanríkisráðherra á bænastund ASÍ fyrir aðild Íslands að ESB.
Forsætisráðherra benti hins vegar á að aðild að ESB er ekki skilyrði fyrir því að matarverð lækki hér. Við þurfum enga utanaðkomandi aðstoð til að matarverð lækki. Við getum lækkað það sjálf. Aðrir þátttakendur í Kastljósinu komu ekki með mótbárur við þessari skoðun forsætisráðherra. Enda ætti það að blasa við að tollar og aðrar hindranir gagnvart innflutningi á mat eru að stærstum hluta heimatilbúinn vandi. Þessar hindranir hafa íslensk stjórnvöld að mestu leyti sett sjálf upp í gegnum tíðina og geta að sjálfsögðu rutt þeim úr vegi þegar þeim sýnist svo. Og það er misskilningur að aðild að ESB myndi þýða að Íslendingar gætu keypt mat hvaðan sem er úr heiminum. Ytri tollmúrar og aðrar innflutningshindranir ESB tækju gildi hér á landi og kæmu í veg fyrir að við gætum keypt mat þaðan sem hentar hverju sinni. Ef menn vilja auka frelsi í innflutningi matvæla hvers vegna ættu þeir að einskorða þetta frelsi við matvæli frá nokkrum Evrópuríkjum?
Þeir sem eru komnir í huganum inn í ESB eiga auðvitað erfitt með að hugsa um Ísland sem frjálst og fullvalda ríki sem taki sjálfstæðar ákvarðanir um örlög sín. Þess vegna eiga Össur Skarðhéðinsson og Halldór Ásgrímsson svo bágt með að sjá það fyrir sér að Ísland afnemi tolla og innflutningshindranir upp á eigin spýtur. En það er samt hægt og því hafa þeir raunar ekki andmælt og gerðu ekki í Kastljósinu í gærkvöldi.