Ínóvember verður kosið til þings í Bandaríkjunum og þá, eins og jafnan, verður kosið um margt annað en einungis hverjir setjast á þing. Í Nevada verður til að mynda kosið um hvort afnema eigi bann við sölu og neyslu á maríúana, en í fyrri kosningum hafa íbúar ríkisins samþykkt notkun efnisins í lækningaskyni og afnumið bann við að hafa á sér lítið magn af því. Nevada er ekki eina ríkið sem aflétt hefur að hluta bann við meðferð og notkun maríúana, því ellefu ríki hafa afnumið bann við að hafa á sér lítið magn efnisins og átta ríki hafa leyft notkun þess í lækningaskyni. Og að sögn The Economist sýnir nýleg könnun í Bandaríkjunum að 70% landsmanna styðji notkun maríúana í lækningaskyni og að 60% vilji aflétta banni við að hafa á sér lítið magn efnisins. Nevada er ekki heldur eina ríkið þar sem kosið er um einhverja rýmkun á fíkniefnalöggjöfinni í nóvember, en í Nevada á þó að ganga lengra en annars staðar með fullu afnámi banns við sölu og neyslu maríúana.
Fremur mjótt er á munum milli fylgismanna tillögunnar og andstæðinga hennar, að minnsta kosti miðað við það sem mætti búast við eftir áratuga baráttu ríkisstjórnarinnar gegn fíkniefnum. Samkvæmt skoðanakönnunum eru 55% kjósenda í Nevada andvíg tillögunni, 40% fylgjandi en 5% óákveðin. The Economist segir muninn líklega verða mun minni þegar upp er staðið og nefnir til að mynda að 110.000 manns hafi undirritað tillögu um að láta kjósa um afnám bannsins, en það sé met.
Í Bandaríkjunum eins og víða um heim eru margir orðnir þreyttir á baráttunni gegn þeim sem selja og neyta fíkniefna, eða „stríðinu gegn fíkniefnum“ eins og það er kallað. Í Bandaríkjunum ræður miklu sá fjöldi sem dúsir í fangelsi fyrir að hafa brotið gegn fíkniefnalöggjöfinni, en samkvæmt nýjustu tölum, sem eru fyrir árið 2000, voru 734.497 manns teknir vegna meðhöndlunar maríúana, sem er meira en tvöföldun frá árinu 1991. Að sögn The Economist voru 90% þessara „glæpamanna“ aðeins sekir um að hafa efnið undir höndum. Kostnaður af því að eltast við þá sem brjóta gegn löggjöfinni um maríúana og halda þeim í fangelsi er umtalsverður fyrir Bandaríkin og það kann að hafa sitt að segja um að fólk hætti stuðningi við fíkniefnabannið. Því fé sem varið er til baráttunnar gegn fíkniefnaneytendum er ekki varið til annarra og þarfari verkefna, svo sem að berjast gegn hryðjuverkamönnum eða annars konar glæpamönnum sem ógna öryggi borgaranna.