Hvað ætli menn hefðu sagt ef forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hefði kvatt sér hljóðs og lýst því yfir að nú væri ekki eftir neinu að bíða, nú yrði að losa heiminn við þennan Saddam í eitt skipti fyrir öll? Ef forseti Íslands hefði lýst því yfir að það þyrfti engar frekari sannanir fyrir vígbúnaði Íraka, úrslitastundin væri runnin upp og nú ættu Vesturlönd að „ráðast á Írak með einum eða öðrum hætti“? Ætli menn yrðu ekki frekar óhressir? Ætli mönnum þætti ekki sem forsetinn ætti að halda þessum skoðunum sínum fyrir sig en láta Alþingi og ríkisstjórn eftir að móta utanríkisstefnu landsins?
Ja það er ekkert víst. Að minnsta kosti virðist enginn fetta fingur út í að forseti Íslands hafi nú séð ástæðu til að greina umheiminum frá því að ríkisstjórnir Stóra-Bretlands og Bandaríkjanna þurfi að leggja fram nákvæmar „sannanir“ fyrir vígbúnaði Íraka áður en unnt sé að fallast á hernað gegn Bagdad-stjórninni. Nú geta menn vitaskuld haft ýmsar skoðanir á því hversu ríkar sönnunarkröfur er unnt að gera áður en menn fallast á að Íraksforseta og Byltingarflokki hans verði komið frá völdum. En hvað sem því líður þá ætti að mega gera þá kröfu að forseti Íslands láti vera að setja fram persónulegar skoðanir sínar á því álitamáli. Nema skoðanir manna á valdsviði og hlutverki forsetans, – sem sumir kalla ennþá „sameiningartákn þjóðarinnar“ – fari eftir því hvort þeir eru sammála eða ósammála forsetanum hverju sinni. Auðvitað er almennum borgurum frjálst að hafa og setja fram sínar skoðanir á því hvað rétt sé að gera varðandi Hussein þennan og baráttuna gegn hryðjuverkum í heiminum. En forseti Íslands þarf í þessu deilumáli eins og öðrum að halda skoðunum sínum fyrir sig. Það er eitt gjaldið sem hver maður greiðir sem tekst það embætti á hendur.
Önnur spurning, en alveg ótengd þessu. Algert smáatriði reyndar. Í borgarstjórn Reykjavíkur sitja 15 einstaklingar og hafa þeir nokkuð ólíkan bakgrunn. Þegar þetta fólk skrifar blaðagreinar eða tjáir sig um borgarmál í viðtölum þá er það kynnt sem borgarfulltrúar og stundum tekið fram í hvaða nefndum það situr. Allt í lagi með það. En um einn í þessum hópi þykir slík kynning aldrei nægja. Sá maður er undantekningarlítið kynntur sem „læknir og borgarfulltrúi“. Hverju sætir það eiginlega? Engin ástæða er til að efast um að borgarfulltrúinn hafi lokið læknanámi og að kynningin sé rétt. En af hverju er menntun þessa eina borgarfulltrúa alltaf tíunduð, hvað sem hann fjallar um? Ekki er Björn Bjarnason kynntur sem „lögfræðingur og borgarfulltrúi“ og væru þær upplýsingar þó eðlilegri því borgarfulltrúar takast oft á um lögfræðileg álitamál en sjaldan um læknisfræði. Ekki er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kynnt sem „B.A. í sagnfræði og borgarstjóri“.