Ásíðustu árum hefur sprottið upp öflug grein iðnaðar hér á landi. Grein þessi hefur tekjur sínar einkum frá ríki, sveitarfélögum, verkalýðsfélögum, stúdentaráðum og öðrum stofnunum samfélagsins sem hirða fé af fólki að því forspurðu. Á fjárlögum ársins er yfir 50 milljónum króna varið til reksturs kærunefndar jafnréttismála, framkvæmdaáætlunar um jafnréttismál, aðgerða til að auka hlut kvenna í stjórnmálum, jafnréttisráðs og jafnréttisstofu. Ýmis ríkisfyrirtæki og stofnanir hafa svo sína eigin jafnréttisfulltrúa á sinn reikning þ.e einnig á kostnað skattgreiðenda. Reykjavíkurborg ver yfir 10 milljónum króna á ári til reksturs jafnréttisnefndar, skrifstofu jafnréttisráðgjafa og verkefna jafnréttisnefndar. Einstök fyrirtæki og stofnananir borgarinnar eru sömuleiðis á kafi í þessum vaxandi iðnaði. Jafnvel íþrótta- og tómstundaráð borgarinnar hefur á að skipa sérstökum jafnréttisfulltrúa og fjölmennri jafnréttisnefnd.
Það er í eðli vandamálaiðnaðar af þessu tagi að hann þarfnast sífellt meiri og fleiri vandamála til að lifa góðu lífi, vaxa og dafna. Þess vegna munum við heyra af sífellt fleiri vandamálum varðandi jafnrétti kynjanna. Tugmilljóna jafnréttisapparöt munu ekki uppræta meinin heldur finna ný á hverju ári – eða öllu heldur búa til ný vandamál úr málum sem engum hafði áður dottið í hug að væru stórhættulegt ójafnrétti.
Þessi vandamálabisnes mun jafnframt gera meira úr öllum mun á kynjunum en efni standa til. Þannig var lögð á það áhersla í öllum fréttum af nýlegri könnun á launum fólks að konur hefðu aðeins 70% af launum karla. Þegar betur var gætt að kom í ljós að munurinn var 7- 11% þ.e. konur hafa um 90% af launum karla. Réttar væri þó að segja að kannski sé allt að 11% munur á launum karla og kvenna því í könnun af þessu tagi vantar oft mikilvægar upplýsingar. Í þessu tilviki vantaði til dæmis upplýsingar um samanlagðan starfsaldur sem hefur auðvitað áhrif á laun fólks.
Könnunin var unnin fyrir jafnréttisráð og nefnd um efnahagsleg völd kvenna. Það er þessum aðilum auðvitað kappsmál að gera sem mest úr launamun kynjanna og telja almenningi trú um að stórkostlegt vandamál sé á ferðinni sem taka þurfi á með auknum fjáraustri í jafnréttisiðnaðinn. Og ef svo illa skyldi vilja til að næsta könnun leiddi í ljós að konur hafi kannski hærri laun en karlar má alltaf stofna nýja nefnd á jafnréttisstofu um efnahagsleg völd veslings karlanna.