H
Er fullreynt með Ólaf? |
vaða áhrif það hefði á fylgi stjórnmálaflokkanna ef Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands gæfi að nýju kost á sér til þings? Myndi landslagið ekki breytast? Nú má ætla að hvaða nýi leiðtogi sem er myndi auka fylgi Samfylkingarinnar, svo þarna er möguleiki sem vert er að skoða. Þá skiptir miklu að ólíkt ýmsum öðrum stjórnmálamönnum þá hefur Ólafur Ragnar aldrei útilokað þennan möguleika. Af hverju athugar þetta enginn? Einhverjir furðufuglar hafa – sjálfsagt í þeim tilgangi að grafa enn undan Samfylkingunni – að minnsta kosti látið Gallup spyrja fólk að því hvort það haldi í dag að hugsanlegt framboð núverandi borgarstjóra í Reykjavík til Alþingis á næsta ári myndi breyta því hvernig það mun kjósa í þeim kosningum. Niðurstaðan varð reyndar að þetta hugsanlega framboð virðist hafa merkilega lítil áhrif, svona þegar horft er til þess að búast mætti við mun meiri áhrifum í fyrstu skoðanakönnun heldur en þegar til stykkisins kæmi. Breytingin sem könnunin benti til var um að Samfylkingin næði að bæta við sig 8 % eða svo og yrði það á kostnað vinstrigrænna og Framsóknarflokksins!
Þetta er að mörgu leyti hin besta hugmynd. Nú er Vefþjóðviljinn ekki sérstakur áhugamaður um velferð Samfylkingarinnar en minnkandi fylgi annarra vinstri flokka ætti að koma landsmönnum vel. En fyrst og fremst hlyti slíkt framboð borgarstjóra til þings að gera það sem sjálfstæðismönnum hefur tvívegis mistekist; að koma vinstri mönnum frá völdum í Reykjavík. Þó Vefþjóðviljinn telji Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur ótrúlega ofmetinn stjórnmálamann – eins og blaðið hefur rökstutt stundum áður – þá er engin ástæða að efast um að það er fyrir framboð hennar sem vinstri mönnum hefur tekist að halda völdum í höfuðborginni, með flest sín önnur kosningamál illa eða alls ekki efnd. Vissulega er allnokkur hópur borgarbúa sem óháð öllum framboðum og málefnum mun aldrei kjósa öðru vísi en gegn Sjálfstæðisflokknum, en enginn þarf að láta sér koma til hugar að R-listinn næði meirihluta atkvæða í Reykjavík án Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Enda hefur kosningabarátta R-listans nú þrívegis aðallega snúist um hana. Hún er sýnd og augýst en aðrir frambjóðendur yfirleitt svo vandlega faldir að fólk gæti haldið að þeir bæru allir bráða smitsjúkdóma. „Fallir þú og týnist / þá fölna ég með þér“ orti Snorri Hjartarson og gæti R-listinn að mörgu leyti sagt það sama við Ingibjörgu Sólrúnu.
Vefþjóðviljinn hefur ekki verið yfir sig hrifinn af frammistöðu minnihlutans í borgarstjórn undanfarin ár. Engum blöðum er þó um að fletta að R-listinn hefur reynst borgarbúum mun verr en núverandi minnihluti hefði gert og þurfa menn ekki að horfa lengi á ótrúlega skuldastöðu borgarinnar – þrátt fyrir allar skattahækkanir – til að sannfærast um það. Og þegar horft er til þess að með hvarfi Ingibjargar Sólrúnar á braut – þvert á marggefin og skýr loforð hennar um hið gagnstæða – má telja öruggt að vinstri menn misstu tök sín á borgarsjóði Reykjavíkur, þá dettur Vefþjóðviljanum ekki í hug að amast við því þó Ingibjörg Sólrún gefi reykvískum kjósendum sínum hugsanlega langt nef. Sérstaklega þar sem ekkert bendir til þess að framboð Ingibjargar til Alþingis yki líkur á vinstri stjórn á Íslandi. Hugsanlegt aukið fylgi Samfylkingarinnar, það litla sem yrði, kæmi frá hinum vinstri flokkunum, sem ekki þarf að koma á óvart þegar horft er til þess að með þátttöku sinni í R-listanum hafa umræddir flokkar, Framsóknarflokkur og Vinstri hreyfingin – grænt framboð, vanið marga kjósendur sína á að kjósa Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur en ekki flokka sína. Hvort eitt eða tvö þingsæti færast milli Samfylkingar og vinstri-grænna, ef áhrifin yrðu þá svo mikil, skiptir litlu hjá þeim stóra ávinningi allra frjálslyndra manna að losa um tök vinstri manna á höfuðborginni.
En eru nokkrar líkur á því að Ingibjörg Sólrún geri reykvískum sjálfstæðismönnum og öðrum frjálslyndum borgarbúum þann greiða að skilja Stefán Jón og félaga eina eftir í ráðhúsinu? Nei auðvitað ekki, segja sjálfsagt þeir fjölmörgu sem muna skýr loforð hennar um hið gagnstæða, gefin fyrir aðeins 12 vikum. En hver segir að Ingibjörg Sólrún telji sig bundna af eigin loforðum? Hún lofaði nú ekki svo sjaldan að „eyða biðlistunum“ og um áramótin voru tæplega 2000 börn á biðlistunum sem átti að vera búið að eyða fyrir kosningarnar 1998. R-listinn lofaði að „lækka gjöld á borgarbúa“ og efndi það með því að hækka útsvörin og finna upp sérstakt holræsagjald til að leggja á borgarana. Hefur R-listinn ekki verið endurkosinn tvívegis með flest sín mál illa eða alls ekki efnd? Er þá nema mannlegt að að Ingibjörg Sólrún freistist til að velta fyrir sér hvort hún geti jafnvel líka komist upp með að svíkja það loforð sitt að hlaupa ekki út í næstu alþingiskosningar? Að minnsta kosti er Ingibjörg Sólrún núna lögst undir feld til að hugleiða hvort hún geti nú, þremur mánuðum eftir að hún fullyrti að hún væri að bjóða sig fram til fjögurra ára og myndi ekki bjóða sig fram til þings, talið borgarbúum trú um að hún hafi þvert á móti sagst vera að bjóða sig fram til eins árs og myndi einmitt bjóða sig fram til þings um leið og færi gæfist. Reykvískir sjálfstæðismenn ættu því ekki að gefa strax upp alla von; og væri það ekki viðeigandi gletta örlaganna að það yrði sama manneskjan og hrifsaði af þeim meirihlutann sem rétti þeim hann aftur? Og það sem meira er, aftur yrði það þá gert vegna hins eilífa eltingarleiks vinstri manna við skoðanakannanir!