Eitt helsta einkenni ríkisrekstrar er að hann vindur upp á sig. Starfsmaður í sakleysislegu hlutastarfi í ráðuneyti getur á augnabliki orðið að sérstakri stofnun, afsakið stofu, með forstöðumönnum, deildarstjórum, sérfræðingum, yfirsérfræðingum og deildarsérfræðingum.
Annað einkenni er tvímælalaust tilhneigingin til að leiðrétta eina delluna með annarri. Í stað þess að leggja Verðlagsstofnun ríkisins niður var henni breytt í Samkeppnisstofnun. Úlfurinn er kominn í sauðargæru. Til að jafna rétt manna til foreldraorlofs var ákveðið að hátekjumenn fengju hæstu bæturnar frá Tryggingarstofnun ríkisins en einstæðir foreldrar með lágar tekjur þær lægstu. Allir vita að niðurgreiðslur og höft landbúnaðarkerfisins kalla á hærri skatta og leiða til hærra matarverðs en hér þyrfti að vera. Í stað þess að vinda ofan af þessu kerfi með því að lækka niðurgreiðslurnar og afnema höftin í áföngum er reynt að kaupa framleiðendur út úr kerfinu með ýmsum hætti. Til dæmis með því að styrkja þá til skógræktar. Á þessu ári ver ríkið tæpum hálfum milljarði króna til skógræktar. Þar af fara 199 milljónir til Skógræktar ríkisins, 88 milljónum til Héraðsskóga og 193 milljónum í Landshlutabundna skógrækt.
Ekki vantar yfirlýsingarnar um nýta megi þessa skóga í framtíðinni. Ef svo óheppilega vill til og framsóknarmenn allra flokka hafa enn tögl og hagldir í landbúnaðarmálum þegar að því kemur verða menn líklega að sætta sig við innflutningshöftin og tollana á útlent timbur. Hver vill ekki heilnæmt íslenskt birki í sólpallinn? Hver vill ekki slá upp með Héraðsskógalerki sem vaxið hefur í besta lofti í heimi?