Þriðjudagur 3. september 2002

246. tbl. 6. árg.

Hver kannast ekki við þennan snáða? Hann hefur árum saman kætt íslensk ungabörn enda er stappan í krukkunum sem myndin af honum prýðir bæði bragðgóð og slettist vel á nærstadda. Svo vel hefur hann fallið í kramið að barnamaturinn frá Gerber hefur um 80% markaðshlutdeild hér á landi. En það eru ekki allir ánægðir. Sjálft Evrópusambandið þolir þetta ekki. Í frétt DV í gær er sagt frá því að maturinn standist ekki reglur Evrópusambandsins um merkingar. Raunar koma allar nauðsynlegar upplýsingar fram á dósunum en þær eru ekki í þeirri mælieiningu sem kerfiskarlarnir í Brussel hafa ákveðið að sé sú eina rétta.

Einhverjir skriffinnar hjá eftirlitsstofnunum Brussel hafa að undanförnu ólmast eins og naut í flagi vegna þess að Íslendingar hafa ekki leitt þessar reglur um dósamerkingar í lög. Umhverfisráðuneytið hefur því ákveðið að staðfesta þessar reglur með þeim afleiðingum að merkja þarf dósirnar upp á nýtt með tilheyrandi kostnaði. Kostnaður neytenda mun ekki aðeins koma fram í hærra vöruverði heldur einnig í minna úrvali því innflytjandi gerir jafnvel ráð fyrir að fækka þeim tegundum sem hann flytur inn vegna þessa. Og það blasir væntanlega einnig við að nýjungar munu eiga erfiðara uppdráttar hér vegna þessarar meinloku. Þröskuldurinn inn á íslenskan markað verður hærri.

Ekki er að efa að þessar reglur Evrópusambandsins um merkingar eru sagðar settar í þágu neytenda og til að stuðla að samkeppni. Oftast er þessi „neytendavernd“ þó ekkert annað en tæknileg tollvernd fyrir framleiðslu innan Evrópusambandsins.